Þriðja kynslóð farsíma

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 17:03:03 (6585)

2004-04-16 17:03:03# 130. lþ. 100.4 fundur 815. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra örlítið út í þá útboðsleið sem lagt er upp með í frv. og hann fjallaði um í framsöguræðu sinni og talaði um að ekki væri hagkvæmara eða betra að fara út í samkeppni á fjárhagslegum forsendum. Um það hef ég miklar efasemdir og vildi spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telur tryggt að geðþóttaákvarðanir ráði ekki þar um og hvernig reglum jafnræðis og sanngirnis verði fullkomlega gætt í slíkri útboðsleið, eða svokallaðri fegurðarsamkeppni þar sem byggt er á mati á þjónustu og fleiri slíkum hlutum en ekki farið hreint og beint út í uppboð þar sem allir keppa á jöfnum grunni og sá fær sem best býður.

Til eru vissulega dæmi um það frá Evrópulöndum eins og Bretlandi og Þýskalandi þar sem menn hafa farið allt of geyst og boðið allt of háar upphæðir, en það á alls ekki að vera til að hræða frá líkt og Morgunblaðið benti á í leiðara sínum í mars í fyrra og brýndi þar hæstv. ráðherra mjög um að fara leið uppboðs en ekki útboðs og er hægt að taka eindregið undir þær hugmyndir Morgunblaðsins og brýnt að hvetja ráðherra til að endurskoða það.

Hér er gert ráð fyrir að þeir sem fá úthlutað rásum verði valdir í svokallaðri fegurðarsamkeppni. Er það fyrirbrigði einhvers konar hugmyndasamkeppni um þjónustu við notendur og vekur það miklar efasemdir um að rétt sé að málum staðið og tryggi að geðþótti ráði ekki för og réttlætisreglur gildi um úthlutun á þessum takmörkuðu gæðum, þessum takmörkuðu auðlindum í eigu þjóðarinnar.

Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hefði ígrundað þetta frekar.