Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:17:19 (6614)

2004-04-23 12:17:19# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram og leyfi mér að segja þó fyrr hefði verið. Í raun og veru vekur það miklu meiri undrun en hitt að hinum merku rannsóknum á Þingvallavatni sem fram fóru á sínum tíma undir forustu doktors Péturs M. Jónassonar prófessors skuli ekki fyrir löngu hafa verið fylgt eftir með löggjöf og sterkari verndun en raun ber vitni. Það kann að hafa vafist nokkuð fyrir mönnum að framtíðarskipan mála hvað varðar þjóðgarðinn sjálfan hefur verið í skoðun og nú loksins liggur fyrir þinginu frv. eða tillaga um stækkun þjóðgarðsins sjálfs, en það er augljóst mál að eigi að vernda Þingvallavatn og lífríki þess og vatnasvið þarf sérstakar aðgerðir og mun víðtækara svæði kemur þá við sögu svo ekki sé talað um það sem er innan núverandi þjóðgarðsmarka og jafnvel þó að sú stækkun nái fram að ganga sem nú liggur fyrir þinginu og er til meðferðar hér.

Það er löngu þekkt að Þingvallavatn og vatnasvið þess er meðal allra mestu gersema af sínu tagi á landinu. Lífríkið er mjög fjölbreytt og mjög sérstakt og grunnvatnskerfið er að mestu leyti neðan jarðar. Skjaldbreiður og hraunin sem liggja til landsins inn af Þingvöllum stöðva alla framrás vatns á yfirborði og lokuðu leiðinni fyrir jökulvötn sem áður féllu niður í Þingvallalægðina að norðan frá Langjökli. Það veldur því m.a. að Þingvallavatn er jafntært og raun ber vitni og úr því rennur ein vatnsmesta og fallegasta bergvatnsá eða lindá landsins, Sogið. Við þessar sérstöku aðstæður, ekki síst hinar vatnsmiklu neðanjarðargjár, hefur þróast mjög sérstakt lífríki og má telja þá heild alla saman, Þingvallavatn og vatnasviðið og þá sérstöku náttúru eða það sérstaka lífríki sem þar er fóstrað, meðal einstæðra gersema í heiminum. Óvíða, ef nokkurs staðar, er algerlega sambærilegar aðstæður að finna.

Ekki þyrfti meira til, herra forseti, til að okkur bæri rík skylda til að vernda þetta svæði og þegar það svo bætist við að þarna í hjarta svæðisins er okkar helsti þjóðarhelgidómur, þ.e. Þingvellirnir og þinghelgin, er ærið nóg fram fært til röksemda fyrir því að taka þarna á málum.

Það er líka ljóst að þörf er á sérstakri lagasetningu af þessu tagi þar sem ekki eru í gildi nein almenn vatnsverndarlög í landinu, sem er auðvitað löngu orðið tímabært að setja. Við höfum verið heldur kærulausir, Íslendingar, um að sinna verndun vatnsfalla og vatnasviða og náttúrulegra rennslishátta í vatnsföllum og vatnakerfum. Höfum sjálfsagt getað talið okkur trú um það lengi vel að það væri óþrjótandi auðlind sem engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af, en svo er auðvitað ekki, hvorki hjá okkur og þaðan af síður ef litið er til stöðu mála á heimsvísu.

Nú er í æ ríkari mæli í alþjóðlegu samstarfi tekið að skilgreina vatn sem algerlega sérstaka auðlind og jafnvel hluta af grundvallarréttindum fólks að hafa aðgang að vatni. Það er hugsunarháttur sem við eigum að sjálfsögu að tileinka okkur eins og aðrir þó að við séum vel sett að því leyti.

Það er að vísu svo, herra forseti, að Íslendingar voru á sínum tíma býsna framsýnir í þessum efnum. Ég held gjarnan á lofti heiðri vatnalaganna frá 1926, sem var ákaflega merkileg og framsýn löggjöf, náttúruverndarsinnuð löggjöf, sem því miður hafa ekki verið virt og þverbrotin að mínu mati aftur og aftur í virkjanagræðgi síðari áratuga. Þegar maður les upphaflega frumvarpið til vatnalaga og greinargerð þess og þær umræður sem um það urðu og þann anda sem það endurspeglar má segja að fyrir næstum öld síðan hafi menn verið orðnir býsna framsýnir og séð mikilvægi þess að sinna vatnsvernd, verndun vatnsfalla og náttúrulegra rennslishátta sem hluta af almennri náttúruvernd. Síðan rann mikið vatn til sjávar, ef svo má að orði komast, og litlu hefur verið breytt í þeim efnum fyrr en þá loksins núna að það er að komast eitthvað á dagskrá, samanber þetta frv., og vonandi í framhaldinu frekari vinna sem lýtur að því að taka til verndunar heil vatnakerfi, vatnasvið, hvort heldur eru vatnsföll á yfirborði eða vatnasvið og grunnvatnskerfi sem oft eru ekki síður merkileg þó að þau dyljist sjónum manna undir yfirborði jarðarinnar.

Í öllum aðalatriðum held ég að frv. nái þeim tilgangi sem því er ætlað að ná. Um samspil þessara laga og tilhögunar mála innan þjóðgarðsins er ég ekki dómbær, ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér nákvæmlega hvernig það er hugsað, en þetta mun sprottið upp úr þeirri vinnu sem unnin var á vegum Þingvallanefndar og miðaði að því að stækka þjóðgarðinn og er það allt saman vel þótt sjálfsagt séu ýmis álitamál í þeim efnum sem þarft gæti verið að athuga.

Það má þó ráða af orðalagi í athugasemdum við frv. að ekki náist utan um allt vatnasvið Þingvallavatns því þar er sagt á einum stað að í frumvarpi þessu sé lagt til að allt svæðið frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul verði sérstakt vatnsverndarsvæði og falli þannig Þingvallavatn og mestur hluti vatnasviðs þess saman í órofa heild með hinum menningarlegu og náttúrufræðilegu minjum.

Það hefði auðvitað verið langæskilegast að hægt væri að segja með réttu að náð væri utan um vatnasviðið allt í heild sinni, þ.e. niður að þeim mörkum sem dregin eru ofan virkjana þar sem Sogið fellur úr Þingvallavatni. Kannski má hugsa sér að bæta úr því þó síðar verði og víkka svæðið út. Eins er auðvitað ekki í öllum atriðum fyrirsjáanlegt hvaða takmarkanir þessi verndun leggur á umsvif, t.d. mögulega fyrirhugaða mannvirkjagerð á síðari tímum. Komið hafa fram hugmyndir um stórfellda vegagerð sem liggja ætti um svæðið, jafnvel að þjóðbrautin milli landshluta kæmi ofan af hálendinu og færi um Þingvöll til byggða. Og hljóta menn að bretta nokkuð brúnum t.d. í því sambandi ef þar ætti að verða þjóðbraut með flutningum á hvers kyns efnum og öðru sem þar gæti verið á ferðinni og ekki teldist kannski sérstaklega æskilegt að flytja yfir þetta vatnasvæði með það í huga að slys gætu orðið og mengun hlotist af óhöppum.

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa almennt jákvæðu viðhorfi til málsins og fagna því að frv. er fram komið þó seint sé vissulega, og þó skammt lifi fyrirhugaðs þingtíma er a.m.k. þarft að málið hafi komið fram og komist til skoðunar hver sem afdrif þess verða á þessu þingi.