Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:04:23 (6625)

2004-04-23 13:04:23# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna svars hæstv. ráðherra við spurningum mínum eða ábendingum um umfjöllun fjmrn. um frv. vil ég koma því á framfæri að ég tel að það eigi hvorki að veita þinginu né þjóðinni röng skilaboð í umfjöllun eins og fjmrn. er með þarna. Það eru röng skilaboð sem þar eru á ferðinni, segi ég a.m.k., og mér fannst hæstv. ráðherra staðfesta það mjög skýrt með því að segja nánast fortakslaust að hún reiknaði með því að þessum ákvæðum yrði beitt til takmörkunar á möguleikum manna til framkvæmdar og notkunar lands eða búskaparhátta á þessu svæði.

Ég kemst ekki hjá því að álykta að það hljóti þá að þýða að þeir sem verða þarna fyrir skerðingum á notkunarrétti jarða sinna eða möguleikum til að nýta landsvæðin öðruvísi í framtíðinni en þeir hafa gert fram að þessu telji að þeir eigi að fá bætur fyrir. Ég er ekki að fara fram á að það liggi fyrir eitthvert kostnaðarmat af slíkum bótum en það eru einfaldlega röng skilaboð að segja eins og ráðuneytið segir að ekki verði séð að lögfesting frv. leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð því það er séð að það mun leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð þó að menn viti ekki hver hann verður eða hvenær hann fellur.