Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:10:06 (6628)

2004-04-23 13:10:06# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:10]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum kannski farin að ræða hér hefðbundin vinnubrögð varðandi mat á kostnaði sem kemur með frumvörpum sem við höfum sent fjmrn. en það er þannig að fjmrn. fer í gegnum frumvarpsgreinarnar og reynir að meta kostnaðinn af þeim eins og því er unnt og síðan kemur það fram í kostnaðarmatinu sem fylgir frumvörpunum og er þá reynt að gera ráð fyrir því í fjárlagavinnu eftir að lögin hafa verið sett. Það er hugsað þannig að menn geti séð aðeins fyrir sér þær stærðir sem þurfa að fara inn í fjárlögin.

Það er auðvitað svo að mjög erfitt er að gera einhverja grein fyrir því í þessu frv. hvort það beri einhvern kostnað með sér. Það er ólíklegt en það er þó ekki hægt að útiloka það og mér er til efs að fjmrn. meti almennt hugsanleg útgjöld eins og í þessu tilviki sem gæti reynt á hugsanlega eftir einhver ár en líklega ekki á þessu ári og ekki á því næsta. Það væri mjög ólíklegt að á það reyndi á næsta ári þó að það sé ekki útilokað, á næsta fjárlagaári sem verið er að undirbúa núna. Ég hef því tilhneigingu til að verja umsögn fjmrn. og sé ekki með nokkru móti hvernig hún hefði getað verið öðruvísi þannig að ekki er verið að gefa nein óeðlileg skilaboð með kostnaðarumsögninni.