Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:36:35 (6650)

2004-04-23 14:36:35# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Íslensk stjórnvöld hafa stundum lent í vandræðum með ýmis málefni gagnvart alþjóðasamstarfi sínu og þetta er eitt af þeim. Hér hafa stjórnvöld verið dæmd fyrir að hafa mismunað fyrirtækjum og fólki með gjaldtöku og viðbrögðin eru komin sem tillaga frá hæstv. ráðherra, frv. sem hér er til umræðu. Hæstv. ráðherra fór vandlega yfir það hér og rökstuðninginn sem er fyrir þessum breyttu hugmyndum um gjaldtöku. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst niðurstaðan svolítið merkileg og velti því fyrir mér hvort hún muni standast þegar hún verður skoðuð til hlítar. Og ég spyr þess vegna, og það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti upplýst það, hvort talað hafi verið um þessar hugmyndir við þá sem um þetta kunna að véla þannig að menn hafi sótt sér einhverjar ráðleggingar um hvort þetta gæti allt saman staðist.

Í fyrsta lagi er höfð á því nafnbreyting sem áður var kallað flugvallagjald og nú skal það kallast skattur. Því skyldu menn gera það? Það virðist örugglega gert til þess, held ég, að ekki sé litið sömu augum á þetta gjald og hitt gjaldið, það nýja sem á að leggja á vegna varaflugvalla. Og það sem dálítið skondið í þessu öllu saman er að nú skal borga sérstakan skatt sem heitir flugvallaskattur, sem er 382 kr. fyrir hvern farþega, en síðan skulu menn borga gjald, þ.e. vegna utanlandsflugsins, sérstakt gjald sem er kallað varaflugvallagjald og það skal vera 598 kr. Borga skal verulega miklu hærra gjald fyrir þjónustu á þeim flugvelli sem maður lendir ekki á. Þjónustan er sem sagt miklu dýrari fyrir þann sem kemur og fer í utanlandsflugi á vellinum sem hann lendir ekki á en á vellinum sem hann lendir á. Þetta er svolítið skringilegt og ég velti því fyrir mér hvort röksemdirnar fyrir þessu muni í raun og veru halda þegar og ef málið fer aftur í þann farveg sem það kom úr, þ.e. frá vinum okkar í Evrópu sem allt vita betur en við um það hvernig framkvæma eigi slíka hluti og við þurfum að taka mið af.

Í 8. gr.frv. segir:

,,Tekjum af flugvallaskatti skal varið til framkvæmda í flugmálum, reksturs flugvalla, rannsókna og sérstakra tímabundinna verkefna í flugöryggismálum samkvæmt samgönguáætlun.`` --- Mér finnst þetta góður rökstuðningur en síðan segir: ,,Tekjum af varaflugvallagjaldi skal varið til að fjármagna viðbótarkostnað sem fellur til við rekstur og viðhald alþjóðlegra varaflugvalla á Íslandi.``

Hæstv. ráðherra lýsti þessu. Ég fyrir mitt leyti sé engan eðlismun á gjöldunum sem innheimt eru sem flugvallaskattur og gjöldunum sem innheimt eru sem varaflugvallagjald og þess vegna er ég með þessar efasemdir. Mér finnst líka ákveðinn vafi á því hvort hægt er að túlka þau orð sem hér eru skrifuð upp úr áliti Davíðs Þórs Björgvinssonar lagaprófessors þannig að sú framsetning standist endilega sem hér er viðhöfð í frv. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þetta hafi verið borið undir lagaprófessorinn, hvort þessi útfærsla á málinu standist þann grunnrökstuðning sem hann hefur fyrir þessum hlutum. Því hér segir, með leyfi hæstv. forseta, í áliti Davíðs Þórs Björgvinssonar:

,,Heimilt er að leggja á farþega gjöld hvort heldur er í innanlandsflugi eða millilandaflugi til að mæta sérstökum kostnaði sem leiðir af veitingu þjónustu sem þeir njóta sem flugfarþegar, þannig að samræmist 36. gr. EES-samningsins. Skilyrði er að gjaldið sé lagt á þá sem njóta þjónustunnar og samhengi sé milli kostnaðar við þjónustuna og fjárhæðar gjaldsins.``

Þetta stenst, finnst mér, samkvæmt því sem hæstv. ráðherra fór yfir áðan hvað varðar úttekt á kostnaðinum sem liggur að baki varaflugvallaþjónustunni. En ég spyr: Hljóta menn ekki að skoða hlutina í samhengi, kostnaðinn vegna annars flugs og skattinn vegna þess og síðan gjaldtökuna vegna varavallaþjónustunnar? Og er ekki hugsanlegt að menn komist að þeirri niðurstöðu að þarna séu á ferðinni óeðlilega mismunandi aðferðir í mati á því hvaða gjöld eða skatta eigi að taka af vegna þessarar þjónustu, annars vegar vegna varaflugvallaþjónustunnar þar sem þjónustan skal metin að fullu og hins vegar vegna annarrar þjónustu flugvallanna þar sem virðist liggja í augum uppi að gjaldið endurspegli ekki kostnaðinn? Það er a.m.k. ekki hægt að neita því að það er svolítið kindarlegt að menn skuli borga hærra gjald fyrir þá flugvelli sem þeir lenda ekki á eins og hér er stofnað til.

Þetta eru þær vangaveltur sem ég hef um málið og það gæti orðið svolítið óskemmtilegt, og ég bið þá um að ég verði leiðréttur, fyrir Íslendinga að fá þetta mál aftur í höfuðið og því held ég að menn þurfi a.m.k. að vanda sig. Og ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál en við fyrsta yfirlestur á málinu finnst mér það líta svona út. Ég tel að ganga þurfi þannig frá málinu að það sé helst engin hætta á að það komi hingað til baka til umfjöllunar aftur vegna þess að menn hafi valið leið sem ekki standist nána og gagnrýna skoðun sem hlýtur að fara fram á málinu því það eru auðvitað viðbrögð við þeirri niðurstöðu hjá EFTA að við höfum farið rangt að og menn hljóta auðvitað að fara yfir það og skoða hvort viðbrögðin séu nægileg og hvort kerfið sem við erum að taka upp standist almennilega skoðun.

Ég hef í sjálfu sér ekki nema allt gott um það að segja að stjórnvöld reyni að bæta úr því sem þarf að bæta úr í þessu sambandi og er sannarlega tilbúinn til að skoða málið og fara yfir það í nefndinni. Vonandi er málið ekki þannig vaxið sem mínar áhyggjur standa til núna og menn geti orðið þar nokkurn veginn fullvissir um að það standist þegar á hólminn kemur.