Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:53:39 (6654)

2004-04-23 14:53:39# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja vegna ræðu þingmannsins að hér er um að ræða frv. sem tryggir mjög vandlega hagsmuni innanlandsflugsins. Hvers vegna? Jú, upphaflega krafan var sú að öll þessi gjöld væru innheimt þannig að aðeins eitt gjald væri innheimt, einn skattur innheimtur og hann væri jafn bæði í innanlandsflugi og millilandaflugi. Við höfum farið þá leið, sem stenst fullkomlega að okkar mati, að vera með skatta á alla og þar með innanlandsflugið, 382 kr., sem hefði þurft að vera um 900 kr. ef þetta væri jafnað og sama gjald væri bæði í innanlandsflugi og millilandaflugi og ekki tekið tillit til þeirrar sérstöku þjónustu sem hv. þm. nefndi réttilega og varðar varaflugvellina. Þjónustuhlutverk varaflugvalla er geysilega mikilvægt. Við getum hins vegar ekki innheimt hjá öðrum en þeim sem lenda á Íslandi eða þeim farþegum sem fara héðan frá landinu. Við getum því ekki látið þá sem nýta sér hugsanlegar aðstæður hér á Íslandi án þess að lenda, greiða neitt fyrir þessa þjónustu.

En hvað um það. Ég held að afar mikilvægt sé að þingmenn átti sig á því vandlega, og það kom fram hjá hv. þm., að við þurfum að halda mjög utan um innanlandsflugið, tryggja það sem allra best og þetta frumvarp gerir það.