Loftferðir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 15:57:05 (6664)

2004-04-23 15:57:05# 130. lþ. 101.2 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki dreg ég úr mikilvægi varaflugvalla. Mikilvægi þeirra er svo mikið, eins og kemur fram í frv. hæstv. ráðherra, að menn eru látnir greiða helmingi hærra gjald fyrir flugvelli sem þeir fara ekki til en þeirra sem þeir lenda á.

Herra forseti. Sá sem þekkir samgrn. best er auðvitað hæstv. ráðherra. Ég ætla ekki að draga úr þeirri lýsingu sem hann brá hér sjálfur upp af stöðu rekstrarins á flugvellinum í Keflavík sem hann sagði að héngi á horriminni. Það hlýtur þá væntanlega að vera vegna verka hæstv. ráðherra sjálfs.

Hins vegar vil ég taka undir með honum og þeim sem hér hafa talað um hversu skrýtið það er að aðskilnaður skuli vera á milli annars vegar rekstrar flugstöðvarinnar og hins vegar sjálfrar flugvallarstarfseminnar. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að það er í besta falli skondið og í versta falli óviðunandi að á sama tíma og reksturinn á flugvellinum sjálfum hangir á horriminni þá skuli myljandi hagnaður af flugstöðinni renna allt annað. Ég tel að það sé eitt af því sem hv. samgn. eigi að skoða mjög rækilega í umfjöllun sinni, vegna þess að ég veit að hún mun gefa sér góðan tíma til þess að fara í þetta.

Hitt sem ég vil svo spyrja hæstv. ráðherra um og kemur ekki beinlínis við efni þessa frv. eru þær upplýsingar sem fram komu hjá hv. formanni samgn. um að nú stæði fyrir dyrum merkileg ráðstefna um málefni flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli en hún væri þannig skipulögð að enginn úr samgönguráðuneytinu og enginn frá Flugmálastjórn kæmi þar að. Mig langaði til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hverju sætir þetta?