Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 17:46:35 (6693)

2004-04-23 17:46:35# 130. lþ. 101.11 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv. 40/2004, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Eins og fram kom í framsögu hv. framsögumanns fyrir nál. Kristins H. Gunnarssonar, skrifa ég undir nál. með fyrirvara og mun ég reyna að gera nokkra grein fyrir hvernig á því stendur.

Hér er, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði grein fyrir, verið að eyða lagaóvissu um hver fer með eftirlit með slátrun á eldisfiski. Í raun má segja að það sé ekki mikil lagaóvissa uppi, því að embætti yfirdýralæknis fer í dag með eftirlitið án þess þó kannski að hafa vitað um það í nokkuð mörg ár. Þar liggur óvissan að búið er að hræra í þessum lögum og breyta þeim sem verður til þess að embætti yfirdýralæknis gerði sér kannski ekki grein fyrir þegar eftirlitið fluttist yfir til þeirra aftur. Í raun kemur þetta skýrt fram í umsögn sem við fengum frá embætti yfirdýralæknis og má segja að sú umsögn sé að mörgu leyti áfellisdómur yfir vinnubrögðum við lagabreytingar og yfir þeirri stjórnsýslu sem hér kemur fram.

Embætti yfirdýralæknis og fisksjúkdómanefnd senda sameiginlega hv. sjútvn. umsögn um frv. og þar segir, með leyfi forseta:

,,Ég vil í upphafi vekja athygli á þætti sjávarútvegsráðuneytisins í þessu máli. Með tilkomu Fiskistofu 1. janúar 1993 og nýrra laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, ásamt reglugerð nr. 429/1992, um fyrirkomulag eftirlits með sjávarafurðum, var með samkomulagi við embætti yfirdýralæknis fallist á að Fiskistofa tæki yfir eftirlit með slátrun, vinnslu og pökkun eldisfisks.``

Á þeim aðlögunartíma sem þarna átti sér stað vann dýralæknir fisksjúkdóma náið með nýjum starfsmönnum Fiskistofu þegar verið var að færa eftirlitið yfir og sú samvinna stóð yfir nánast allt árið 1993. Það er svo ekki fyrr en seint á liðnu ári að yfirdýralækni verður ljóst að með þeirri breytingu sem varð með lögum nr. 55/1998 var orðið ,,slátrun`` einhverra hluta vegna fellt út. Sú breyting var gerð algjörlega einhliða án þess að haft væri nokkurt samráð við embætti yfirdýralæknis, þó að breytingin þýddi að þarna færðist eftirlitið aftur til yfirdýralæknis frá Fiskistofu en yfirdýralæknir eða embætti hans hafði ekki hugmynd um það, og því má segja að frá árinu 1998 til þessa tíma hafi í raun ekki verið neitt eftirlit með slátrun á eldisfiski, hvorki eftir að fiskurinn var kominn í hús né jafnvel með hvaða hætti hann var geymdur fyrir slátrun. Það er ekki fyrr en hið talsvert mikla slys verður á Norðfirði, í Neskaupstað, þar sem þúsundir laxa sluppu úr kví sem geyma átti þá í þangað til þeim yrði slátrað, að menn fara að velta fyrir sér hver hefði með eftirlitið að gera. Þá í raun komast menn að því að samkvæmt lögum var búið að færa eftirlitið til embættis yfirdýralæknis og gera sér grein fyrir að embætti yfirdýralæknis hefur ekki hugmynd um að þeir hafi þetta eftirlit með höndum aftur.

Þetta varð til þess að menn þurfa að reyna að eyða því sem kallað er lagaóvissa. Í raun er engin lagaóvissa, eins og ég sagði í upphafi máls míns, heldur liggur þetta eftirlit hjá embætti yfirdýralæknis í dag og í raun liggur okkur ekki nein ósköp á að breyta því, vegna þess að það er enginn vafi á því hver fer með eftirlitið í dag. Það er embætti yfirdýralæknis.

Yfirdýralæknir segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Slík vinnubrögð í stjórnsýslu og lagasetningu geta vart talist til fyrirmyndar. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að ráðuneyti upplýsi framkvæmdar- og eftirlitsaðila og hafi um það samráð þegar veigamiklar breytingar á borð við þessar eru gerðar.``

Þarna segir yfirdýralæknir eins og ég sagði fyrr í máli mínu að hann hafi í raun ekki haft hugmynd um þegar þessi skylda færðist yfir til hans aftur.

Síðan kemur fram í umsögn fjmrn. um frv. að embætti yfirdýralæknis hafi í raun ekki tekið neitt gjald fyrir það að hafa eftirlit með slátrun og því svarar yfirdýralæknir með þeim hætti að það liggi að sjálfsögðu í augum uppi að embættið hafi ekki tekið neitt gjald fyrir þetta eftirlit síðan í janúar 1993, enda var því algjörlega grunlaust um að þessar lagabreytingar sjútvrn. og Alþingis hefðu átt sér stað.

Yfirdýralæknir tekur fram í umsögn sinni að hann telji að hreint faglega séð ætti eftirlit með slátrun á eldisfiski að heyra undir embætti hans með sama hætti og öll önnur slátrun eldisdýra, en tekur það þó fram að það sé kannski öðruvísi með eldisfisk þar sem hann sé að mestu leyti unninn og sé slátrað í fiskvinnslustöðvum og þar af leiðandi mætti kannski færa rök fyrir því að eðlilegt væri að Fiskistofa hefði eftirlitið með höndum.

Það er í raun og veru annað atriði sem verið er að tala um þarna. Síðan er 2. gr. frv. sem er nánast óbreytt 14. gr. í lögunum eins og þau standa í dag, en þó bætist þar við setningin: ,,Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um búnað vinnslustöðva þar sem slátrun á eldisfiski fer fram og um eftirlit með slátrun á eldisfiski.`` Þarna er verið að setja í hendurnar á hæstv. sjútvrh. reglugerðarvald um hvers konar búnað þessar vinnslustöðvar þurfa að hafa varðandi slátrun á eldisfiski. Og maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort einhverjar aðrar reglur þurfi hvað varðar búnað til að slátra eldisfiski, vinna hann og pakka, en venjulegum villtum fiski sem landað er inn í fiskvinnslustöðvar og hvort ekki mætti í raun og veru spara hæstv. sjútvrh. þá vinnu að þurfa að fara að setja sérstaka reglugerð um það, heldur vísa bara í reglugerðina um vinnslu og pökkun á villtum fiski.

Í 2. gr. kemur líka fram atriði sem búið er að vera bitbein í talsverðan tíma milli landbrn. og sjútvrn. Það er bitbeinið um það hver eigi að hafa eftirlit með fiskimjöli, þegar fiskimjöl er orðið fóður fyrir fiska. Það var að mörgu leyti skondið að verða vitni að því þegar landbúnaðarráðuneytismenn mættu á fund sjútvn. og fóru yfir það í hverju þessi ágreiningur væri fólginn, en hann er fólginn í því hvort Fiskistofa eða svokallað Aðfangaeftirlit eigi að hafa þetta eftirlit með fiskimjöli þegar það er notað í fóður fyrir dýr.

Nú veit ég ekki hvort það er venjan, frú forseti, að ráðuneyti gefi umsagnir um frumvörp annarra ráðuneyta, en í þessu tilviki fengum við umsögn frá landbrn. varðandi málið. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

,,Í 2. gr. laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða eru sjávarafurðir skilgreindar sem:

,,Sjávarafli og fiskafurðir eins og skilgreint er hér að framan, svo og fóðurvörur unnar úr fiski og fiskúrgangi.``

Í 2. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru segir:

,,Lög þessi gilda um eftirlit með framleiðslu, geymslu og sölu á fóðri sem ætlað er búfé sem haldið er til matvælaframleiðslu og sölufóðri annarra dýra, ...``

Hér er um ákveðna skörun milli þessara tveggja laga að ræða. Eðlilegt verður að teljast að hafa ákvæði laganna skýr hvað varðar eftirlit með fóðri sem fara á fram. Markmið opinberrar stjórnsýslu ætti að vera að hafa allt eftirlit einfalt og skilvirkt.

Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemdir við framkvæmd eftirlits með fiskimjöli í desember 2002 og í kjölfar þeirra athugasemda var eftirlit með fiskimjöli fært yfir til Aðfangaeftirlitsins í samráði við sjútvrn.

Á undanförnum missirum hafa átt sér stað viðræður milli landbrn. og sjútvrn. um þá skörun og réttaróvissu sem skapast getur í framkvæmd mismunandi lagaákvæða um sama efni.

Þær viðræður hafa ekki verið leiddar til lykta. Það er skoðun landbúnaðarráðuneytisins að það frumvarp sem hér um ræðir sé ekki til þess fallið að eyða óvissu og skapa skýran grundvöll fyrir framkvæmd eftirlits með fóðri, t.d. hvað varðar verkaskiptingu milli eftirlitsaðila.

Það er skoðun landbúnaðarráðuneytisins að það þurfi að marka skýr skil hvenær fiskimjöl telst vera orðið fóður og í framhaldi af því hvenær eðlilegt sé að Aðfangaeftirlitið fari með allt eftirlit með fiskimjöli.``

Í þessari umsögn landbrn. kemur fram með mjög skýrum hætti að þessi deila er í raun ekki smávægileg. Ráðuneytin tvö, landbúnaðar og sjávarútvegs, hafa ómögulega getað komið sér saman um hvar eftirlitið á að liggja og virðast vera komin í hár saman eða upp á kant hvort við annað í þessu máli og því hlýtur maður að velta fyrir sér, í ljósi þess sem ég sagði áðan að í raun er engin knýjandi þörf á því að breyta lögunum núna þar sem embætti yfirdýralæknis fer jú með eftirlitið með slátrun á eldisfiski, af hverju menn gefa ekki ráðuneytunum þann tíma sem þau þurfa til að reyna að ná samkomulagi um það sem stendur í 14. gr. laganna, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, því það er alveg auðséð að þeim hefur ekki dugað sá tími sem þau höfðu því þau hafa ekki komist að niðurstöðu.

Við erum í raun að ræða frv. til laga og jafnvel að staðfesta það sem lög þar sem þeir sem eiga að fara eftir þeim, Aðfangaeftirlitið, Fiskistofa, segja okkur fyrir fram að lögin séu það óskýr að ekki sé vitað hver á að hafa eftirlitið. Það kemur náttúrlega líka fram í nál. meiri hlutans að þannig er það því þar segir: ,,... þ.e. Fiskistofu og Aðfangaeftirlits, einkum varðandi eftirlit með fiskimjöli sem notað er í fóður en skilin milli ráðuneyta eru ekki nægjanlega skýr.`` Þarna er verið að tala um eftirlitið. Þar segir líka: ,,Er stefnt að því að greiða úr því sem fyrst.`` Með öðrum orðum, ráðuneytin hafa ekki náð samkomulagi um með hvaða hætti eftirlitið á að fara fram en samt ætlum við að staðfesta þetta sem lög.

Þarna skapast kannski lagaóvissa eins og nefnt var áðan og við hljótum að velta því fyrir okkur, sem störfum á Alþingi, hvort við eigum, í þeirri fljótaskrift sem nú er í gangi þar sem allt þarf að verða að lögum strax og helst umræðulaust, að staðfesta lög þar sem fyrir fram er vitað að þau lög skapa réttaróvissu og þeir sem eftir eiga að fara benda okkur á það. Ætlum við að þverskallast við slíkum ábendingum og keyra lögin í gegn og staðfesta þau? Eða ætlum við að doka við af því að engin knýjandi þörf er á að breyta þeim og segja: Við getum alveg eins tekið þetta upp á næsta þingi?