Milliliðalaust lýðræði

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:39:24 (6700)

2004-04-23 18:39:24# 130. lþ. 101.21 fundur 600. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Sú þáltill. sem við ræðum hér nú er á margan hátt mjög spennandi og athyglisverð. Mér finnst hún góðra gjalda verð svo langt sem hún nær. Hér eru spennandi hugmyndir settar fram hérna og rökstuðningurinn virkar líka spennandi. Ég tel að það mætti alveg taka undir það að Alþingi mundi álykta að stofnuð yrði nefnd sem mundi kanna möguleikana á því að þróa svokallað milliliðalaust lýðræði og notkun og kosti þess að viðhafa rafrænar aðferðir við slíka framkvæmd. Einnig má kanna hvernig hægt er að nota netið til að þróa milliliðalaust lýðræði og að sjálfsögðu þá með það að leiðarljósi að leggja mikla áherslu á persónuvernd og annað þess háttar í sambandi við kosningar og atkvæðagreiðslur á netinu.

Það er nefnilega þannig, frú forseti, að það hefur orðið algjör bylting núna á undanförnum missirum hvað varðar internetið og lýðræðislega umræðu. Þar hefur orðið þróun sem enginn gat ímyndað sér að mundi eiga sér stað bara fyrir örfáum missirum síðan, til að mynda hvað varðar þjóðfélagsumræðu. Fólk er á netinu endalaust að diskútera sín á milli um þjóðfélagsmál, um pólitík og annað þess háttar.

Því miður höfum við ekki séð það á Íslandi enn sem komið er en í nágrannalöndunum er stundum boðið upp á það að stjórnmálamenn setjast niður við tölvu og fólk getur haft samband við þá í gegnum tölvuna og spurt þá um allt milli himins og jarðar og þeir svara jafnóðum. Ég hef sjálfur tekið þátt í svona umræðum einu sinni fyrir ekki mörgum árum síðan. Þá sat ég á spjalli við Franz Fischler, þáverandi sjávarútvegskommissar Evrópusambandsins, ásamt mörgu öðru fólki sem var statt víðs vegar í Evrópu. Þetta var ekkert vandamál. Það var ekkert vandamál að koma þessu fyrir. Það fór í þetta ein kvöldstund og það var mjög ánægjulegt og skemmtilegt að fá þarna tækifæri til að tala við svo háttsettan embættismann og stjórnmálamann.

Ég hygg kannski að fyrsta skrefið í þá átt að feta sig inn á þessa braut væri kannski það að íslenskir stjórnmálamenn íhuguðu þann möguleika að gefa færi á sér með þessum hætti þannig að almennir borgarar, fólkið í landinu, gæti hugsanlega sest þá á spjall við þá endrum og eins og spurt þá um hvaðeina sem þeim liggur á hjarta og jafnvel átt við þá einhvers konar rökræður sem væru þá jafnframt opnar öllum öðrum sem fylgdust með. Þetta gæti verið gagnlegt.

Ég tel hins vegar samt sem áður og vil að það komi fram, að þetta geti verið svolítið vandmeðfarið og vandrötuð rétt slóðin í þessu máli. Hér höfum við að sjálfsögðu þegar kemur að kosningum og öðru þess háttar mikilvæga hluti eins og t.d. persónuvernd. Við megum heldur ekki gleyma því að langt í frá allir hafa aðgang að internetinu. Ef það ætti að fara út í einhvers konar kosningar þá yrði að undirbúa það mjög vandlega og kannski feta sig fram á veginn smátt og smátt. Eins og bent er á í ágætri greinargerð með þessari þáltill. verður að gæta persónuverndar, eins og ég sagði áðan, og þess verður að gæta að þeir sem hafa ekki aðgang að tölvum geti líka verið með og hafi jafnan möguleika og hinir sem hafa tölvur til að taka þátt hugsanlega í slíkum kosningum. Ég á við minnihlutahópa og aðra sem eiga kannski undir högg að sækja. Að sjálfsögðu þyrfti að gæta réttar þeirra.

Frú forseti. Þetta er spennandi hugmynd. Það er gaman að velta þessu fyrir sér, alveg sjálfsagt að ræða þetta og alveg sjálfsagt að Alþingi íhugi hvernig þetta skuli framkvæmt í framtíðinni.