Milliliðalaust lýðræði

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:51:47 (6702)

2004-04-23 18:51:47# 130. lþ. 101.21 fundur 600. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., Flm. BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari ágætu umræðu um beint og milliliðalaust lýðræði og ætla að stytta mál mitt í síðari ræðu verulega því það eru nokkur mál sem bíða umræðu áður en dagur verður að kveldi kominn í þinginu.

Hér hafa komið fram margar ágætar hugmyndir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti það ágætlega að hve litlu leyti við höfum beitt þjóðaratkvæðagreiðslum um meginmálin. Við höfum hreinlega alls ekki gert það. Það eru hundar, brennivín og búið.

Ágætt dæmi um góða notkun á beinu lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum er nú í Bretlandi þar sem Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur ákveðið að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Verulega gott framtak hjá Tony Blair og lofsvert í alla staði og gott að breski Verkamannaflokkurinn skuli feta þessa leið í málinu að leyfa fólkinu að greiða atkvæði um það.

Í lokin, frú forseti, ætla ég að leyfa mér að vitna til orða fyrrv. hv. þm. og formanns Alþýðuflokksins, Jóns Baldvins Hannibalssonar, núverandi sendiherra í Helsinki, en hann var einn af stuðningsmönnum og baráttumönnum fyrir beinu lýðræði á fyrri árum og er það áreiðanlega enn þá. Í viðtali við Morgunblaðið 25. apríl 1997 í tilefni af staðfærslu Morgunblaðsins á greinaflokki Economist um beint lýðræði sagði Jón Baldvin, með leyfi forseta:

,,Íslendingar ættu að geta hugsað sér að verða tilraunastofa í frekari þróun lýðræðislegra stjórnarhátta vegna lýðræðishefðar okkar, menntunarstigs og fámennis þjóðarinnar sem ætti að auðvelda að láta tilraunina heppnast.

Lýðræði okkar er í grundvallaratriðum vanburðugt og ófullkomið vegna þess að við höfum aldrei í lýðveldissögunni notið þeirra grundvallarmannréttinda sem felast í jöfnum atkvæðisrétti, einn maður eitt atkvæði, né heldur notið þess að geta ráðið persónuvali í kosningum.

Af þessum sökum er vafalaust kominn tími til að endurmeta reynsluna og hugsa stærra. Hugmyndir um að nýta nýja upplýsingatækni og miðlun í tilraunum með þjóðaratkvæðagreiðslur og beina þátttöku almennings, með minna vægi fulltrúalýðræðis, eru fyllilega tímabærar og mjög áhugaverðar.

Tilgangurinn væri auðvitað að auka ábyrgð og sjálfsaga kjósenda, þeir yrðu að taka beina ábyrgð á afleiðingum gerða sinna með slíku vali. Það væri verið að styrkja þá stoð lýðræðisins sem byggist ekki aðeins á réttindum heldur líka á skyldum.``

Svo mæltist Jóni Baldvini Hannibalssyni í Morgunblaðinu 25. apríl 1997. Hann gat um eitt af mikilvægustu mannréttindamálum okkar sem störfum í þinginu, að jafna atkvæðisrétt allra landsmanna að fullu. Það eru engin rök fyrir því að atkvæði allra Íslendinga séu ekki jafngild. Misvægi í atkvæði er ekkert annað en skýlaust mannréttindabrot og svartur blettur á stjórnmálum okkar Íslendinga. Jafn atkvæðisréttur er þó fyrst og fremst spurning um mannréttindi og með því að gera landið allt að einu kjördæmi væri tryggt að allir í landinu hefðu nákvæmlega sömu möguleika á að hafa áhrif á stjórn landsins.

Þessu til hliðar er algert lykilatriði, eins og fram hefur komið í margendurfluttu máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um opið bókhald og fjárreiður stjórnmálaflokkanna, til að byggja upp heilbrigt stjórnmálalíf, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttur hefur svo margoft komið inn á og barist fyrir af eldhug sínum og einurð sem fátt stenst samjöfnuð, að opna bókhaldið því að leynd og pukur með fjármál flokkanna grafa undan tiltrú almennings á stjórnmálamönnum og þar með lýðræðinu öllu og er áreiðanlega einn stærsti þáttur í þeirri vantrú sem margir hafa á stjórnmálamönnum, eins og fram kom í frægri skoðanakönnun Gallups á dögunum þar sem innan við helmingur spurðra, 47%, sögðust hafa traust eða jákvæðar tilfinningar til Alþingis Íslendinga. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hið háa Alþingi þegar svo er komið. Ég er sannfærður um að leyndin og pukrið með fjármál flokkanna og þessi ósýnileiki hefur mikil áhrif þar á því að gegnsæi er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi. Við lifum ekki í gegnsæju samfélagi sem er algert lykilatriði til að efla stjórnmálalífið. Stjórnmálamenn eiga að byrja heima hjá sér og opna bókhald flokkanna, leyfa að við jöfnum atkvæðaréttinn og eflum beint lýðræði með því að festa rétt fólks til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum í stjórnarskrá lýðveldisins. Ég ætla ekki lengra út í þá umræðu þó að um þetta mætti hafa langt mál og mikið. Vonandi gefst tækifæri til þess síðar ef allshn. mun afgreiða málið til 2. umr., sem ég tel sjálfsagt að hún geri. En það bíða mörg merkileg mál 1. umr. í þinginu og því ætla ég að ljúka máli mínu að þessu sinni og þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni kærlega fyrir málefnalega og uppbyggilega umræðu.

Ég vil nefna að lokum það sem hv. þm. Jón Gunnarsson gaukaði að mér, að Alþingi mætti ganga á undan í að efla lýðræðislega þátttöku fólksins með því að útvarpa öllum umræðum Alþingis á sérstakri útvarpsrás, sem er ákaflega ódýr og árangursrík leið til að greiða leið almennings að hinni lýðræðislegu umræðu í landinu sem er okkur öllum til mikilla hagsbóta að fólk taki þátt í og fylgist vel með.