Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:58:21 (6746)

2004-04-26 15:58:21# 130. lþ. 102.32 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram við 1. umr. þessa máls er ég þeirrar skoðunar að það sé allt í lagi að samþykkja þetta frv. Ég tel hins vegar enga sérstaka hættu samfara því að beita ekki þessum möguleika til frestunar.

Við í Samf. munum samþykkja þetta mál. Ég rifja þó upp fyrir hv. formanni félmn. að við 1. umr. spunnust töluverðar umræður um annars konar vá sem ýmis okkar í þessum sal töldum að gæti steðjað að íslenskum vinnumarkaði, nú þegar verið er að stækka hið Evrópska efnahagssvæði. Ég á þar við starfsemi starfsmannaleigna. Það er alveg ljóst að þær eru í örum vexti innan EES og það er líka ljóst, ekki síst af dæmum á Íslandi, að fyrirtæki geta með mjög ósvífnum og ófyrirleitnum hætti notfært sér þjónustu þeirra til þess að brjóta rétt á fólki og líka til þess að grafa undan samkeppnishæfni, annars vegar íslensks vinnuafls og hins vegar íslenskra fyrirtækja. Ég er sannfærður um að við í þessum sal fordæmum öll þau dæmi sem eru um slíkt.

Ég vil rifja það upp að Samf. lagði fram þáltill. um einmitt þetta mál þar sem lagt var til að Alþingi fæli ríkisstjórninni að semja frv. sem setti einhvers konar reglur um það hvað þessum starfsmannaleigum væri heimilt að gera, og einkum og sér í lagi hvað þeim væri ekki heimilt að gera. Hæstv. félmrh. sem ekki er staddur hér í dag, vafalaust með góðar og gildar ástæður fyrir fjarveru sinni, tók tiltölulega vel í að beita sér fyrir því að slík lög yrðu sett. Það kom fram í umræðum bæði í þinginu, að vísu af síðara tilefni, og eins sagði hann það í fjölmiðlum. Hæstv. félmrh. sagði líka að málið væri þannig vaxið að hann teldi rétt að hann sem einn af fulltrúum framkvæmdarvaldsins á Íslandi, sá sem fer með þennan málaflokk, mundi beita sér fyrir því þar sem hann stæði á erlendum vettvangi sem íslenskur félagsmálaráðherra að með alþjóðlegum hætti yrði mynduð samstaða um að taka á þessu vandamáli. Þetta er alþjóðlegt vandamál sem við sjáum að er í vaxandi mæli að brjótast upp á yfirborðið víðs vegar í Evrópu.

Það liggur þess vegna fyrir, herra forseti, að þeir fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem einir hafa tjáð sig um þetta mál hafa tekið jákvætt í það. Hæstv. utanrrh. tók jákvætt í málið þegar umræður spunnust um það á ráðherrafundi EFTA undir lok síðasta árs. Ég vil því spyrja hv. formann félmn., Guðlaug Þór Þórðarson, eða þá fulltrúa framkvæmdarvaldsins sem hér eru staddir hvort þeir hafi í einhverju hvikað frá þessari fyrri afstöðu sinni, hvort eitthvað hafi komið fram sem bendi til þess að þetta markmið sé ekki jafngilt og áður. Sérstaklega vil ég spyrja hv. þm. og formann félmn. hvort hann hyggist ekki beita sér fyrir því, og þá væntanlega með góðu samþykki ríkisstjórnarinnar, að samþykkt verði þáltill. sem ég hef nefnt, hugsanlega í því formi sem hún verður lögð fram eða þá í breyttu formi. Ég vil fá úr því skorið hér áður en þessari umræðu er fram haldið hvort það liggi ekki alveg ljóst fyrir að á þessu sé rík þörf og að þetta muni hv. félmn. afgreiða áður en þessu þingi slotar.