Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:09:31 (6748)

2004-04-26 16:09:31# 130. lþ. 102.32 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, Frsm. GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég vil bara nota tækifærið og þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Steingrími J. Sigfússyni fyrir innlegg þeirra í umræðuna. Mjög margt sem kom fram í máli þeirra get ég tekið undir. Ég er alveg sammála því að það væri ekkert sjálfgefið að einhver sérstök vá hefði verið ríkjandi þótt þessi aðlögunartími hefði ekki komið til og ég er í sjálfu sér sammála því líka að menn hefðu getað gert þetta betur út frá því sjónarmiði hvernig menn koma fram við þau nýju ríki sem þarna eru að koma inn.

Á sama hátt er ég sammála því markmiði sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að við ættum að reyna að aðstoða vini okkar í þessum ríkjum, þá kannski sérstaklega í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, eins og mest við megum. Mér fundust koma góðar ábendingar fram í ræðu þingmannsins.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór ágætlega yfir mál sem er nokkuð í umræðunni, starfsmannaleigur. Það hefur m.a. verið tekið fyrir í þingmannanefnd EFTA. Þar var ágætisumræða sem var tekin upp af hv. þingmanni. Samt hafa starfsmannaleigur líka kosti og hafa margir Íslendingar nýtt sér þær og fengið tækifæri til að starfa í gegnum slíkar leigur en að sjálfsögðu skyldu menn fara vel yfir það mál og kanna hvort hlutirnir séu þar gerðir eins og við viljum helst.

Varðandi afstöðu þess sem hér stendur til málsins og hvernig vinnulag beri að hafa hvað varðar þá daga sem eftir eru af þinginu tel ég eðlilegt að hv. þingmaður beini því þá sérstaklega til þess aðila sem hann hefur gert fram til þessa, þ.e. félmrh. Hann rakti ágætlega hvernig þau samskipti hefðu verið. Við munum örugglega ræða það í félmn. og meta hvernig best sé að snúa sér í því máli. Hins vegar liggur fyrir að málið er nokkuð umfangsmikið eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson þekkir vel og það skiptir máli að fara vel yfir það.