Borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:15:21 (6816)

2004-04-27 14:15:21# 130. lþ. 104.1 fundur 859. mál: #A borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Frú forseti. Enginn efast um nauðsyn þess og gildi að tryggja öryggi starfsmanna Íslensku friðargæslunnar, hvar svo sem þeir starfa eða munu starfa. Hins vegar er vopnaburður dauðans alvara, frú forseti. Það sem er umhugsunarvert, í tilefni af fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, er sú stefnumótun íslenskra stjórnvalda að fara í verkefni og sækjast beinlínis eftir verkefnum þar sem vopnaburður er nauðsynlegur, eins og hér er gert. Það er nefnilega pólitík í því, frú forseti.

Það eru mörg önnur verkefni, brýn verkefni við uppbyggingu í löndum þar sem stríð hefur verið háð eða átök hafa orðið, sem krefjast ekki vopnaburðar, m.a. verkefni sem unnin eru af alþjóðlegum hjálparstofnunum og verkefni sem unnin eru af Sameinuðu þjóðunum. Þess vegna verður maður að lýsa furðu sinni á því að það skuli vera sérstaklega eftirsóknarvert fyrir íslensk stjórnvöld að sækjast eftir störfum af þessu tagi.