Samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:52:07 (6832)

2004-04-27 14:52:07# 130. lþ. 104.4 fundur 628. mál: #A samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Það var Svanfríður Jónasdóttir, fyrrv. þm. Samf., sem var 1. flm. að tillögu um það verkefni sem hér er rætt um og ég vil nýta tækifærið til að lýsa alveg sérstakri ánægju minni með það. Það verður mjög spennandi að fylgjast með niðurstöðum úr rannsókninni. Ég tel það þó galla á rannsókninni að hún skuli ekki hafa farið fyrr af stað en raun ber vitni því nauðsynlegt er að skapa trausta grunnlínu eða ,,baseline`` eins og það er kallað þegar verið er að gera slíkar langtímarannsóknir á samfélaginu. Hún verður ekki gerð með sama hætti eftir að verkefnið og uppbyggingin er hafin eins og verið hefði ef tekið hefði verið til starfa fyrr. Engu að síður tel ég það mjög mikilvægt spor sem hér er tekið og til fyrirmyndar um hvernig við eigum að starfa í framtíðinni.