Samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:53:18 (6833)

2004-04-27 14:53:18# 130. lþ. 104.4 fundur 628. mál: #A samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., LS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Lára Stefánsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem komið hefur fram og ég er einstaklega ánægð með að slík samfélagsáhrif séu rannsökuð. Aðferðafræðilega hefði auðvitað verið betra að skoða stöðuna fyrir fram en það er ekki hægt að tala um það núna. Ég vildi því leggja áherslu á að töluleg gögn frá því fyrir framkvæmdirnar kæmu vel inn í rannsóknarvinnuna og að í þeim hluta sem fellur undir eigindlega aðferðafræði, þ.e. viðtöl, sé leitast við að ná fram upplifun manna á þeim breytingum sem eiga sér stað frá því áður.

Einnig hef ég mikinn áhuga á því að til séu einhvers konar áfangaskýrslur eða efni sem við getum nýtt okkur til að læra af. Einnig velti ég því fyrir mér sem kom fram í máli eins hv. þm. áðan hvað hugsanlega gætu verið óæskileg áhrif. Ég velti fyrir mér hvort menn hefðu einhverjar hugmyndir um hver þau væru. En ég hlakka til að sjá hvað út úr þessu kemur, hvaða áhrif slíkar stórframkvæmdir af þessu tagi hafa á byggðir landsins og hvaða þýðingu það hefur.