Flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:45:45 (6909)

2004-04-27 17:45:45# 130. lþ. 104.15 fundur 938. mál: #A flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Hæstv. forseti. 15. desember árið 2001 samþykkti Alþingi samhljóða þáltill. mína um flutning hættulegra efna um jarðgöng. Þar var ríkisstjórninni falið að setja reglur um slíka flutninga þar sem kveðið yrði á um hvort þeir skyldu leyfðir og þá með hvaða skilyrðum, þ.e. flutningstækjum, ökuhraða, eftirliti og hvort loka skuli göngum fyrir annarri umferð meðan á slíkum flutningi stæði.

Nokkrum mánuðum eftir samþykkt tillögunnar skipaði þáv. dómsmrh. nefnd til að gera tillögur að slíkum reglum. Nefndin skilaði tillögum sínum seint á árinu 2002 og í apríl í fyrra, fyrir einu ári, voru síðan auglýstar nýjar reglur um þessa flutninga um Hvalfjarðargöng, en þau eru sem kunnugt er langmest notuðu göngin á Íslandi. Alls fara um 1,3 milljónir bíla um göngin á hverju ári og mánaðarlegur bílafjöldi er frá 50--150 þúsund.

Nýju reglurnar eru vissulega til bóta og takmarka flutning hættulegra efna um göngin mun meira en reglurnar sem settar voru við opnun ganganna. Í gömlu reglunum voru þessir flutningar einungis bannaðir um helgar, þ.e. frá klukkan tíu á föstudagsmorgni og til miðnættis á sunnudagskvöldi og reyndar lengur um stórhátíðar og verslunarmannahelgar. En samkvæmt nýju reglunum eru flutningar alfarið bannaðir á eldfimu gasi í tönkum og á sprengiefni í stórum umbúðum og flutningur á eldsneyti í tönkum og flutningur á tómum eldsneytistönkum er bannaður núna samkvæmt nýju reglunum frá klukkan þrjú til átta síðdegis mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga og flutningur á öllum hættulegum farmi síðan bannaður frá klukkan tíu að morgni til klukkan eitt eftir miðnætti á föstudögum og sjö að morgni til eitt eftir miðnætti á laugardögum og sunnudögum.

Þessar nýju reglur eru vissulega til bóta en þær ganga allt of skammt að mínu áliti. Ég skil ekki af hverju þessir flutningar eru ekki bannaðir fyrr en eftir klukkan þrjú á virkum dögum. Vissulega er umferðin mest síðdegis en ekki verður fram hjá því horft að á hverjum morgni fer mikill fjöldi fólks um Hvalfjarðargöngin til vinnu og í skóla. Það er algengt að fólk norðan fjarðar stundi vinnu á höfuðborgarsvæðinu og fólk sunnan fjarðar vinni á Grundartanga og Akranesi. Einnig sækir mikill fjöldi fólks skóla í Reykjavík en býr í heimahögum norðan Hvalfjarðar. Það hefur verið áætlað að um 300 manns fari daglega á hverjum morgni í þeim erindagerðum um göngin og það er að mínu áliti óverjandi að þetta fólk geti á hverjum morgni vænst þess að mæta bensínflutningabíl í göngunum. Það mundi ekki valda erfiðleikum þó að þessir flutningar yrðu takmarkaðir enn frekar en nú er vegna þess að ágætur vegur er fyrir Hvalfjörð með lítilli umferð og því upplagt að flytja gas og eldsneyti landveginn. Ég hef því lagt svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. samgrh., en þessi málaflokkur hefur nýlega verið fluttur undir hans ráðuneyti frá dómsmrn:

1. Hver er reynslan af reglum sem settar voru með auglýsingu lögreglustjórans í Reykjavík 10. apríl 2003 í framhaldi af ályktun Alþingis um flutning hættulegra efna um Hvalfjarðargöng?

2. Stendur til að endurskoða þessar reglur og takmarka enn frekar þessa flutninga?