Menntun fótaaðgerðafræðinga

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:21:58 (6926)

2004-04-27 18:21:58# 130. lþ. 104.18 fundur 808. mál: #A menntun fótaaðgerðafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:21]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Fótaaðgerðafræðingar inna af hendi mikilvæga þjónustu og fyrir þá er vaxandi þörf, einkum á öldrunar- og heilbrigðisstofnunum landsins m.a. vegna vaxandi aldurs landsmanna. Á Íslandi eru fáir fótaaðgerðafræðingar og í hópi þeirra hefur engin endurnýjun orðið undanfarin ár.

Menntaðir fótaaðgerðafræðingar hér á landi hafa sótt menntun sína ýmist til Norðurlandanna eða Bretlands og í þeim löndum er menntuninni misjafnt háttað bæði innan landanna og milli landanna, þ.e. í sumum tilfellum er menntunin á framhaldsskólastigi en annars staðar er hún á háskólastigi.

Oftast er mikil áhersla lögð á að Íslendingar geti sótt sér menntun á Íslandi og þurfi ekki að sækja hana erlendis. Þessi tiltekna menntun er á meðal þess sem er mjög mikilvægt að komi heim. Hér eru allar aðstæður fyrir hendi, m.a. menntaðir kennarar með fyllstu réttindi. Þessi grein, fótaaðgerðafræði, er meðal þess sem kalla má hefðbundna kvennagrein og þó ég sé ekkert að mæla með því að karlmenn forðist greinina eða sæki sér ekki menntunar í henni talar staðreyndin sínu máli hingað til. Þessi grein er einmitt sú grein sem maður getur mjög vel séð fyrir sér að konur vildu sækja, t.d. konur sem eru búnar að koma upp börnum. Við þekkjum að þær fara gjarnan að leita sér menntunar þá, konur sem fóru ekki í skóla á sínum yngri árum, og sá hópur kvenna fer örugglega ekki til útlanda til að sækja sér menntun.

Það er ekkert sem mælir gegn því að þessi menntun sé sett upp á Íslandi. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Er fyrirhugað að koma á menntun í fótaaðgerðafræði á Íslandi og ef svo er, hvenær?

2. Hvernig er undirbúningi þess háttað?

3. Er til námskrá fyrir slíkt nám og ef svo er, hvert er innihald hennar?

4. Hvar í skólakerfinu er fyrirhugað að slíkt nám eigi heima?