Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:05:11 (6947)

2004-04-28 14:05:11# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt farið eftir meginniðurstöðu skýrslunnar, þ.e. að fara leyfisveitingaleiðina, setja almenn lög um leyfisveitingar og binda þau skilyrðum. Þau eru bundin skilyrðum þegar í dag eins og hv. þingmenn ættu að vita.

Ég tek undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að skýrslan er prýðilega unnin. Það er einmitt ekki farin afturvirknileið í því frv. sem fyrir liggur. Í því er gefinn aðlögunartími. Ég spyr hv. þm.: Er hann að segja þingheimi að það eigi ekkert að gera út af ástandinu á fjölmiðlamarkaði í dag? Niðurstaðan er alveg skýr og klár í skýrslunni. Samþjöppunin á fjölmiðlamarkaði er óeðlileg. Eigum við ekki, í ljósi orða hv. þm., að gera neitt í þessu máli fyrr en á árinu 2009 þegar síðasta leyfið rennur út? Á ekkert að gera í þessum málum fyrr en árið 2009? Er staðan á fjölmiðlamarkaði þannig eðlileg að mati Samf.? Er samþjöppunin það heppileg að þeirra mati að það eigi ekkert að gera í þessu máli, ekki baun í bala, fyrr en árið 2009?