Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:08:47 (6949)

2004-04-28 14:08:47# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að detta í þann pytt að fara að afneita annaðhvort forsetanum eða forsætisráðherra, eins og hv. þm. hefur lagt upp með. Mér finnst ágætt að geta vitnað í orð okkar ágæta forseta, Ólafs Ragnars Grímssonar og skammast mín ekkert fyrir það. Hann var ágætisprófessor í stjórnmálafræðinni og orð hans mjög gild í þessu máli, mjög gild.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að spyrja hvort ekki ætti að hafa eignarhaldið augljóst, þ.e. hverjir eiga fjölmiðlana. Það er engan veginn verið að banna að útvarpsréttarnefnd geti kallað eftir gögnum eins og kemur skýrt fram í frumvarpinu. Hún kallar eftir þeim gögnum, þar á meðal gögnunum um hverjir eigi fjölmiðlana. Þannig er tekið á því og það atriði ætti að vera alveg útrætt.

Varðandi siðareglur milli blaðamanna annars vegar og fréttastjórnar og hins vegar eigenda fjölmiðlanna þá er ekkert sem bannar einkareknum fjölmiðlunum að setja svona reglur fyrir sig. Af hverju setja þeir ekki slíkar reglur sjálfir?

Ég velti þessu fyrir mér og hef rætt við ágæta vini mína í blaðamannastéttinni frá öllum fjölmiðlum, það er rétt að taka það fram. Þeir hafa einmitt verið að velta fyrir sér svona reglum. Er rétt að ríkið, og það eru vangaveltur sem vert er að skoða, setji skýrar og klárar reglur um samskiptin á milli eigenda fjölmiðla annars vegar og blaðamannanna og fréttamannanna hins vegar, og setja um leið á stofn ríkisstofnun sem liti yfir öxlina á blaðamönnum meðan þeir sinna innra starfi sínu, starfi sem blaðamenn á viðkomandi fjölmiðli? Ég efast um að það sé rétt leið. En ég er tilbúin, og hef lýst því yfir, að skoða þá leið betur. En ég hef efasemdir um þá leið, að ríkið komi þannig inn í fjölmiðlana og verði yfir henni sem opinbert eftirlitsapparat sem skoðar innra starf fjölmiðla.