Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:14:24 (6952)

2004-04-28 14:14:24# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ákaflega aumt þegar maður spyr hæstv. ráðherra og hún treystir sér ekki til að svara einfaldri spurningu. Þess í stað fer hún með umræðuna út og suður. Ég beini þessari spurningu því á ný til hæstv. ráðherra. Er það ekki forgangsverkefni, sem ætti að fara í á undan þessu verkefni, að opna fjármál stjórnmálaflokkanna?

Svo er það hitt atriðið, þ.e. skipan nefndarinnar. Menn eru að tala um að með þessu eigi að tryggja að öll sjónarmið og viðhorf í þjóðfélaginu komist að í fjölmiðlum. Þá vil ég spyrja: Hvernig stendur á því að hæstv. menntmrh. skipaði ekki fulltrúa allra stjórnmálaafla í landinu í nefndina?

[14:15]

Ég er ekki tilbúinn til að fallast á að þetta sé prýðileg skýrsla. Ef menn ætla að vinna góða skýrslu þá leita þeir eftir sjónarmiðum þeirra sem starfa í greininni. Mér finnst það hafa skort, a.m.k. hef ég lesið það sem ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum, að fulltrúar Blaðamannafélagsins hafi ekki komið að þessari vinnu. Mér finnst það mjög bágt í slíkri vinnu og ekki til þess fallið að skila góðri skýrslu. Á þetta ekki að vera opið? Erum við ekki að tala um umgjörð fyrir fjórða valdið og það að tryggja lýðræðið? Er það að loka skýrslugerðina af og hafa hana í felum í anda lýðræðisins? Ég get ekki séð það.

Ég vonast til að hæstv. ráðherra treysti sér til að svara fyrri spurningu minni úr fyrra andsvari mínu.