Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:33:23 (6956)

2004-04-28 14:33:23# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var sorglegt og dapurlegt að hlusta á talsmann Samf. í málinu því skoðanaleysið var hrópandi. Þegar fyrirtæki sem eiga til að mynda í fjölmiðlafyrirtækjum standa frammi fyrir því að hugsanlega komi löggjöf sem á einhvern hátt snertir starfsemi þeirra er ekkert óeðlilegt að þau bregðist við. En að heill flokkur verði allt í einu skoðanalaus, flokkurinn sem er alltaf að tala um að setja almennar reglur og lýðræðisleg vinnubrögð í samfélaginu. Allt í einu þegar ekki bara ég, heldur skýrsluhöfundar og fræðimenn benda á samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og að það sé ógnun við lýðræðislega umræðu má ekki ræða það.

Það er gott að hv. ræðumaður kom inn á að fjölbreytni væri mikil í fjölmiðlum. Það er hárrétt. Fjölbreytnin er nokkuð mikil í fjölmiðlum, alveg þolanleg. En verið er að benda m.a. á að það er lykilatriði að fjölbreytnin sé í eignarhaldi líka. En það er nóg að mati hv. ræðumanns að segja: Við skulum hafa eins marga fjölmiðla og hægt er, annað skiptir ekki máli. Þetta er Murdoch. Þetta er nákvæmlega það sem Rupert Murdoch sagði varðandi stefnu sína í fjölmiðlamálunum. Hann sagði að eignarhaldið skipti ekki máli og að við skyldum bara leyfa einum manni að eiga allt heila klabbið ef við erum með nógu marga fjölmiðla, dagblöð eða sjónvarpsrásir. Það er í lagi að einn maður eigi þetta allt saman og það er stefna Samf. Það er það sem kom út úr ræðunni sem við hlustuðum á hér í þingheimi áðan.