Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:35:16 (6957)

2004-04-28 14:35:16# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. kýs enn að nota tíma sinn til að tala um Samf. í stað þess að svara þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Hvaðan koma fordæmi fyrir því að banna einstaklingum eða fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að eiga svo mikið sem eina krónu í ljósvakafyrirtæki? Hæstv. menntmrh. vitnar sí og æ til Evrópuráðsins, sem ég reyndar fagna að hún skuli gera vegna þess að þaðan kemur margt gott, en hvaðan kemur þetta fordæmi?

Ég vil líka spyrja hæstv. menntmrh. af því að hún sagði áðan að það væri einhver Murdoch-lína hjá Samf. Var það þá Murdoch-lína sem Sjálfstfl. hefur aðhyllst hingað til? Það er ágætt að heyra að þangað hafi þeir sótt fyrirmyndir sínar.

Virðulegi forseti. Ég vil fá svör við þeim spurningum sem ég beindi til hæstv. menntmrh. og þó að mér þyki mjög vænt um að hún hafi kynnt sér tillögur okkar samfylkingarmanna svona ítarlega vil ég gjarnan að hún svari þeim spurningum sem ég beini til hennar. Hvar eru dæmin um skort á fjölbreytni í umfjöllun fjölmiðla? Hæstv. menntmrh. skautar alltaf fram hjá því að þetta snýst um fjölbreytni í umfjöllun fyrst og síðast. Ef eignarhaldið bendir til þess að skortur sé á slíkri fjölbreytni kynni að vera ástæða til að grípa til þess neyðarúrræðis að setja lög á markaðinn sem munu hefta gríðarlega aðgang slíkra fyrirtækja að fjármagni. Enda er ég ekki, virðulegi forseti, ein um að telja að með þessum lögum verði óeðlilega hert að fjölmiðlastarfsemi í landinu. Ég bið um að hæstv. menntmrh. svari þessu: Hvar er fordæmi fyrir að markaðsráðandi fyrirtæki sé með öllu bannað að eiga nokkurn hlut í ljósvakamiðli og hvar eru dæmin um skort á fjölbreytni í umfjöllun fjölmiðla á Íslandi í dag?