Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:42:08 (6961)

2004-04-28 14:42:08# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að fá þetta í umræðuna. Ég hafði nefnilega ekki tíma til að koma inn á þetta í ræðu minni sem ég hefði gjarnan viljað gera.

Í fyrsta lagi viljum við ekki selja Ríkisútvarpið. Það eru sjálfstæðismenn sem vilja það og þess vegna vakti það athygli mína að það er ekki tekið undir það í skýrslu nefndarinnar að tryggja eigi traust Ríkisútvarp og hæstv. menntmrh. svaraði ekki út af hverju ekki hefði verið farin sú leið í frv. ríkisstjórnarinnar. Ég vil svara fyrir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson með svari hv. þm. Péturs H. Blöndals í umræðunum þeirra á milli. Með leyfi forseta sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal:

,,Varðandi það að Norðurljós kaupi RÚV. Við höfum tæki í þjóðfélaginu til að hindra það. Það er Samkeppnisstofnun. Hún mun skoða hvort þetta valdi of mikilli samþjöppun á þessum markaði, nákvæmlega eins og á öllum öðrum mörkuðum.``

Síðan segir hann í sama svari, með leyfi forseta:

,,Við erum með tæki til að koma í veg fyrir þvílíkt og eigum ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því sérstaklega.``

Hæstv. menntmrh. og fleiri hv. flokksbræður hennar hafa sagt að mikil nauðsyn sé á að setja sérstakar og strangari reglur um nákvæmlega þennan markað, en við í Samf. --- og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson einnig geri ég ráð fyrir sem er reyndar í fæðingarorlofi og ég ætla ekki að fara að svara fyrir hann að öðru leyti --- höfum ekki útilokað að það kynnu að koma upp þær aðstæður að ástæða væri til að setja slíkt í lög. En ástæðurnar verða að vera til staðar til að löggjafinn grípi með það afdrifaríkum hætti inn í atvinnustarfsemi eins og hér er lagt til. Að mínu mati, virðulegi forseti, eru tilefnin til staðar og nú hef ég margsinnis kallað eftir þeim hjá hæstv. menntmrh. og þau svör hafa ekki komið enn þrátt fyrir að eftir þeim sé kallað. Ég hlýt því að kalla eftir þeim enn og aftur.