Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:07:08 (6974)

2004-04-28 15:07:08# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert hvernig talsmenn Samf. í dag víkja sér undan því hver á fætur öðrum að fjalla um það sem Evrópuráðið hefur fjallað um í sínu máli að þetta mál snýst ekki síður um fjölbreytni í eignarhaldi en fjölbreytni í stöðvavali. En það vilja talsmenn Samf. ekki tala um í dag, hæstv. forseti.

Það er líka athyglisvert að hér vilja menn helst ekki tala um það að á Íslandi búum við við algjörlega sérstakar aðstæður í þessum efnum, hæstv. forseti. Hvergi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við hefur sú staða komið upp sem uppi er á íslenskum fjölmiðlamarkaði, að markaðsráðandi aðilar á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins séu sömuleiðis ráðandi í frjálsri fjölmiðlun. Þess vegna er kannski ekki óeðlilegt, hæstv. forseti, að hér þurfi að bregðast við með svolítið öðrum hætti en annars staðar en þess er þá líka að geta, hæstv. forseti, að viðbrögð í öðrum löndum eru jafnólík og þau eru mörg.