Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:38:00 (6999)

2004-04-28 16:38:00# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Hinn geðugi hv. síðasti ræðumaður (Gripið fram í: Og vörpulegi.) og vörpulegi þingmaður Sjálfstfl. í Reykjavík --- ég hef nú glest nokkuð við hann í sætum og víðar, sem er rétt að skýra ekki frá öllu --- verður samt að muna stundum að hann er einn af 22 þingmönnum Sjálfstfl. hér á þinginu, hann er einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar og það sem hann segir hefur ákveðinn þunga. Þegar hann segir að þetta frv. geti orðið til þess að auðvelda honum og hv. þm. Pétri Blöndal, Birgi Ármannssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni (Gripið fram í.) leiðina að því að leggja niður Ríkisútvarpið og einkavæða þá vinnu sem þar fer fram tel ég komið að því að leiðtogar flokksins, því hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er ekki orðinn það enn þá eða félagar hans, svari því til hvort þetta muni vera rétt leiðarhnoða hjá þingmanninum, hvort stefnan sé sú að frv. eigi á einhvern hátt að vera forveri þess að leggja Ríkisútvarpið niður. Þó að öll þessi umræða, þessi upphlaup hæstv. forsrh., geðofsi hans og annarra vina hans hafi komið mjög á óvart, þó að leyndin, pukrið, þó að frv. sjálft, bæði fyrsta gerðin sem lak út og sú gerð sem við þingmenn höfum núna fengið, að vísu bara í gegnum netið og fjölmiðlana, þótt þetta hafi allt valdið mér undrun hef ég ekki haft hugmyndaflug enn þá til að láta mér detta það í hug sem hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni datt í hug hér áðan.