Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:27:04 (7015)

2004-04-28 18:27:04# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns og það eru tvö atriði sem mig langar til að spyrja hana um. Þær spurningar lúta að Ríkisútvarpinu og því sem hún sagði um nauðsyn þess að styrkja það.

Má ég skilja það sem svo að það sé núna stefna Framsfl. að leggja beri af afnotagjöld Ríkisútvarpsins? Ef svo er, hvernig stendur á því að um leið er lýst stuðningi við það sem nefndin segir í skýrslunni? Ég vitna til bls. 52 þar sem nefndin segir að réttur til innheimtu afnotagjalda styrki mjög stöðu Ríkisútvarpsins og sjálfstæði þess. Mér finnst stefna Framsfl. í málefnum afnotagjaldanna núna bæði vera ný og mér finnst hún stríða gegn því sem nefndin segir.

Í annan stað vil ég fá að vita varðandi það sem hv. þm. sagði um að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði hvort hv. þm. talar fyrir hönd Framsfl. Það sjónarmið stríðir gegn vilja auglýsenda sem hafa þá sýn og þá stefnu að þeir vilji fá að auglýsa í þeim miðli sem hefur mesta útbreiðslu, sem sagt Ríkisútvarpinu.