Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:51:27 (7024)

2004-04-28 18:51:27# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Hæstv. dómsmrh. er svo málefnalegur í andsvörunum að það er varla að maður treysti sér til þess að koma upp í stólinn, dóni og villingur sem maður er. Þó vil ég svara honum þegar hann spyr hvaða hagsmuni Samf. er að verja í málinu. Við erum að verja hagsmuni almennings á Íslandi, neytenda fjölmiðlanna og þátttakenda í þeim. Við erum að verja hagsmuni íslenskra fjölmiðlafyrirtækja og starfsmannanna sem þar vinna sem eru sennilega hátt í 2 þús. manns. Við erum að verja hagsmuni innlendrar dagskrárgerðar og íslenskrar menningar í fjölmiðlum nú á dögum sem er einn helsti menningarmiðill okkar tíma eins og fyrrv. menntmrh., núv. hæstv. dómsmrh. ætti að vita.

Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að taka sérstaklega til umfjöllunar hina ágætu greinargerð að tillögu Bryndísar Hlöðversdóttur og fleiri samfylkingarmanna. Ég vil líka benda honum á, af því að ég ætla ekki að spyrja hann spurninga á eftir, að fyrrv. menntmrh., Tómas Ingi Olrich, taldi árið 1996 að ekki væri nein þörf á eignarhaldstakmörkunum sem hann setti síðar af stað. En á bls. 83 í skýrslunni frægu stendur, með leyfi forseta:

,,Gæta verði þess að reglur verði ekki svo hamlandi að þær vinni í reynd gegn þeim hagsmunum sem þeim er ætlað að vernda með því að fyrirtækin verði svo lítil að þau fái ekki þrifist.``

Einnig: ,,Því stærri og öflugri sem innlend fyrirtæki eru, því minni hætta er t.d. á yfirtöku eða uppkaupum erlendra aðila. Þá er það einnig forsenda þess að þau hafi burði til þess að standa undir innlendri dagskrárgerð. Þetta sjónarmið skiptir máli varðandi eflingu innlendrar menningar ...``

Hvaða hagsmuni er hæstv. dómsmrh. að verja? Hvaða fyrirtæki er hann að ráðast á? Hvaða almannaþarfir er honum illa við í þessu sambandi?