Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:57:46 (7028)

2004-04-28 18:57:46# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Siðavendni um skrif á internetið fer hæstv. dómsmrh. heldur illa, enda man ég ekki betur en hæstv. dómsmrh. hafi líkt þeim sem hér stendur, Össuri Skarphéðinssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur við Pol Pot og stjórn rauðu khmeranna. Það er eðlilegt að hæstv. ráðherra vilji gleyma því sem hann hefur skrifað á internetið og ýmsu því sem hann hefur sagt m.a. um það mál sem hér er til umfjöllunar. Hæstv. dómsmrh. hefur lýst alveg þveröfugum skoðunum í þessum ræðustól miðað við það sem hann setur nú fram, en reynir að breiða yfir það með því að gefa til kynna að Samf. hafi einhver annarleg sjónarmið eða annarlega hagsmuni í málinu. Því fer fjarri. Við viljum einfaldlega standa vörð um og gæta þeirrar fjölbreytni og þeirrar grósku sem ríkir á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

En hvaða hagsmuna á Sjálfstfl. að gæta og hæstv. dómsmrh., Björn Bjarnason? Jú, þeirra hagsmuna að þeir hafi vanist því að ráða tveimur sterkustu fjölmiðum landsins, Ríkissjónvarpinu og Morgunblaðinu. Og nú er það óvart svo að komið er til skjalanna dagblað sem er öflugra og nú er ef til vill að verða til ljósvaki sem ógnað gæti yfirburðastöðu ríkissjónvarps Sjálfstfl. og þá eru það hagsmunir hæstv. dómsmrh. og Sjálfstfl. að setja lög til þess að tryggja að yfirburðum þeirra á fjölmiðlamarkaði verði ekki ógnað og þá skal allt undan láta, sjálfsagðar starfsaðferðir, lýðræðisleg vinnubrögð og öll sjónarmið sem þeir hafa áður lýst. Allt er það grafið og gleymt því vald þeirra á fjölmiðlamarkaði verður að tryggja, kosta hvað sem það vill.