Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 20:49:18 (7034)

2004-04-28 20:49:18# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[20:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur vel á vondan þegar ráðherra núverandi ríkisstjórnar rifjar upp umræðuna sem ég hóf um árið. Ég benti á staðreyndir sem ég las út úr ákveðnum skýrslum frá Samkeppnisstofnun og taldi að fyrirtækið væri að fremja það sem ég kallaði á þeim tíma óhæfuverk gagnvart íslenskum neytendum. Ráðherrarnir, allir utan einn, sem tóku til máls um það í þingsölum og annars staðar vörðu fyrirtækið, þeir vörðu kerfin og sögðu að staðan væri breytt, hlutur þessa fyrirtækis á markaði væri minni en ég hafði sagt. Síðan klykktu þeir út með því að segja: Ef fyrirtækið gerist brotlegt þá eru til lög í landinu sem eiga að duga, samkeppnislög.

Herra forseti. Þetta er nákvæmlega það sem Samf. er að segja. Það eru til lög í landinu, samkeppnislög, sem væntanlega gætu tekið á ofurtökum þessa fyrirtækis ef í ljós kæmi að þeir kæmu með svipuðum hætti fram gagnvart íslenskum neytendum og ég taldi þá að þeir gerðu á matvælamarkaði. Við teljum hins vegar, herra forseti, að staðan í þessum málum gefi sannarlega tilefni til að setja lög. Við höfum bent á hvers konar lög eigi að setja. Við höfum t.d., beinlínis út af því dæmi sem hæstv. ráðherra nefndi, lagt til að sett verði lög um gagnsæi í eignarhaldi. Við höfum líka lagt til að sett verði í lög ákvæði sem skyldi beinlínis fyrirtæki og útgáfur til að setja leikreglur innan sinna vébanda sem tryggi sjálfstæði ritstjórna. Þar með ætti að vera hægt að koma í vegt fyrir þá misnotkun sem hæstv. ráðherra óttast svo mjög.

Ég verð auðvitað að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar eru dæmin um þessa misnotkun?