Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 20:51:29 (7035)

2004-04-28 20:51:29# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[20:51]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tekur mikið mark á skýrslum. Nú liggur fyrir önnur skýrsla. Það er skýrslan um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Þar kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að á fjölmiðlamarkaðnum séu mörg óæskileg merki um samþjöppun og æskilegt að löggjafinn grípi þar inn í með lagasetningu til að ganga gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunarinnar. Það er meginniðurstaða skýrslunnar. Reyndar er þar fjallað um ýmislegt fleira, margt fleira, m.a. um sjálfstæði ritstjórna. En sjálfstæði ritstjórna er reyndar svolítið umdeilt mál. Sum ríki í nágrannalöndunum hafa stjórnarskrárvarinn rétt eigendanna til að hafa áhrif á ritstjórnarstefnuna.

Hvernig eigum við að halda á svona málum ef það gerist, eins og við sjáum hér á landi, að ritstjórarnir eru ekki bara ritstjórar blaðanna heldur sitja líka í stjórnum útgáfufélaganna? Þessir aðilar hafa talað um að setja sér reglur. Af hverju hafa þeir ekki sett sér slíkar reglur? Af hverju hafa þeir ekki breytt þessu?

Fyrr í dag var talað um að reglur, eins og talað er um að gera hérna, mundu hafa mjög óæskileg áhrif á vilja aðila til að fjárfesta í fjölmiðlum. Halda þeir að reglur eins og hv. þm. er að tala um hafi engin áhrif á vilja aðila til þess að fjárfesta í fjölmiðlum? Halda þeir að þær hefðu engin áhrif á vilja Ruperts Murdochs til þess að fjárfesta í fjölmiðlum í öðrum heimshlutum, manns sem hefur það að yfirlýstri stefnu sinni að hafa áhrif á kosningar og hverjir komist til valda? Halda þeir að það hefði engin áhrif á vilja þeirra sem stýra stærstu blöðunum í Bandaríkjunum, þar sem eigendurnir setja sjálfa sig í stöður sem hafa áhrif á hver efnistök eru í ritstjórnum?