Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 20:58:16 (7038)

2004-04-28 20:58:16# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[20:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég á við er að blaðamönnum verði gert kleift að fylgja sannfæringu sinni og þeim skapað umhverfi þar sem þeir þurfa ekki að skrifa um eða fjalla um hlutina með öðrum hætti en þeir telja réttast.

Ég rifja upp, af því að hv. þm. tekur þetta dæmi, að í þessum sal sitja tveir menn sem samanlagt sættu því fjórum sinnum að þurfa að verjast árásum sem miðuðu að því að þeir yrðu reknir úr ritstjórastóli, af því að þeir vildu ekki skrifa gegn sannfæringu sinni. Hv. þm. spyr síðan um dæmi, um hvað ég eigi við. Ég skal taka dæmi sem er skylt hv. þm.

Það er til marks um sjálfstæði í vinnubrögðum þegar fréttamenn Stöðvar 2 neita fyrirskipun eigenda um að segja ekki frá ósiðlegum boðsferðum ráðherra Sjálfstfl. í laxveiði á kostnað stórfyrirtækis. Þetta er um það bil sjö mánaða gamalt dæmi. Þá var það svo að Kaupþing átti í viðkvæmum samningaviðræðum við Stöð 2. Á sama tíma fór einn af ráðherrunum sem tengdist málinu í boðsferð, að veiða lax á vegum þessa fyrirtækis sem var fullkomlega óverjandi út frá öllum siðlegum forsendum. Það kom fyrirskipun frá eigendum Stöðvar 2 um að fjalla ekki um þetta. Fréttamennirnir óhlýðnuðust því. Eigandinn hefði getað gripið til einhverra ráða, sagt einhverjum þeirra upp. Það gerðist ekki í þessu tilviki. En ef eigendurnir eru jafnófyrirleitnir og ósvífnir og hv. þingmenn Sjálfstfl. telja þá þarf að vernda fréttamenn gegn slíkum uppákomum.