Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:20:43 (7043)

2004-04-28 21:20:43# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:20]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég er farinn að hallast að því. Við sjáum nú hvert drottningarviðtalið á fætur öðru og í kvöld var það hæstv. menntmrh. En hvað sem því líður höfum við í Frjálsl. ítrekað orðið varir við það að fyrrum flokksmaður í Sjálfstfl. hefur verið sniðgenginn þegar borgarmál hafa verið rædd og þar vil ég nefna Ólaf F. Magnússon. Þegar menn hafa verið að ræða borgarmál og skipulagsmál hafa stjórnendur Kastljóssins aldrei séð nokkra ástæðu til að kalla á fulltrúa F-listans í borgarstjórn til að ræða um þau mál. Ég verð að spyrja á móti: Finnst hv. þm. það vera eðlileg vinnubrögð að sniðganga eitt afl í borgarstjórn Reykjavíkur? Það getur varla verið. Er ekki eitt af markmiðum þess frv. sem við erum að ræða að tryggja að öll sjónarmið heyrist? Ég tel að Ríkisútvarpið hafi ekki sinnt því, a.m.k. ekki hvað það varðar. Og ef við skoðum annað mál og berum saman við það vandamál sem við eigum að leysa hér með því að setja lög á, ég hef ekki orðið vitni að öðru t.d. en að Stöð 2 hafi haft það fyrir reglu að boða fulltrúa allra stjórnmálaafla sem sæti eiga á þinginu með reglulegu millibili eða í hverri viku í dagskrá að ræða um stjórnmál líðandi dags. Ríkissjónvarpið gæti lært það af Bylgjunni og Stöð 2 og Norðurljósum, og ég tel að það ætti að einhverju leyti að líta til og taka upp ýmsa starfshætti sem fyrirtæki Norðurljósa viðhafa.