Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:23:50 (7045)

2004-04-28 21:23:50# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:23]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Við erum einfaldlega ósammála um þetta og til að skera úr um það tel ég að við ættum kannski að skoða umfjöllun Kastljóssins. Ef við tökum bara síðustu þrjá, fjóra daga og skoðum hverjir hafa flokksskírteini í stjórnarflokkunum og hafa verið að ræða þessi mál, þá tel ég að menn sjái að ég hafi rétt fyrir mér. Það er engin spurning um það. Ég veit að hv. þm. Guðjón Guðmundsson er sanngjarn maður og hann kemst örugglega að svipaðri niðurstöðu og ég eftir að hafa skoðað viðmælendur Kastljóssins. Eins og þegar maður horfði á þáttinn í kvöld, þarna voru náttúrlega flokkssystur að ræða mjög umdeilt mál og það fór þægilega um fólk og var bara á léttu nótunum. Við verðum að ... (Gripið fram í.) Þú getur bara komið og rætt það, þú hefur seinni ræðu og getur farið yfir þetta. Ég tel einsýnt að ef við skoðum umfjöllun þessa ágæta þáttar síðustu þrjá daga muni sanngjarnir og hlutlausir menn eins og Guðjón Guðmundsson verða sammála mér.

(Forseti (HBl): Hv. þm. ber að beina ræðu sinni til forseta.)