Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:52:50 (7061)

2004-04-28 21:52:50# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:52]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Öðruvísi mér áður brá. Yfirleitt hefur hv. þm. ekki legið á skoðunum sínum um svona hluti. Á markaðnum í landinu eru menn með peninga og í skýrslunni er látið að því liggja að það eigi að herða þannig að þessum markaði að menn verði að vera eingöngu í dagblaðaútgáfu ef þeir ætla að hafa peninga sína þar að einhverju leyti, það sé ekkert um það að ræða að nota hluta af fjármunum sínum sem áhættufé í dagblaðarekstri, heldur verði menn gjörsamlega að hætta í öðrum fjárfestingum til þess að standa í þessari. Síðan eru mönnum sett þannig skilyrði að það þurfi að vera fjórir í hóp til þess að geta rekið fyrirtæki sem fær úthlutað leyfi. Þetta er það sem kemur í þessu frv.

En ég var að spyrja um það sem stóð í skýrslunni og mér finnst hv. þingmaður vera farinn að missa svolítið sjálfstæði sitt hér í þingsalnum þegar hann þorir ekki að svara spurningum af þessu tagi.