Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:46:05 (7080)

2004-04-28 22:46:05# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:46]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vissi ekki til þess að ég hefði sérstaklega slæma reynslu af því að koma nálægt fjölmiðlum en kannski hv. þingmaður hafi betri upplýsingar. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að ég sé áhugamaður um sögu þekki ég ekki fjármögnun allra þeirra ljósvaka- eða fjölmiðlafyrirtækja sem hafa verið hér í gangi, hvorki á síðustu tveimur né 20 árum. Það sem ég veit hins vegar er að ef við berum saman það tímabil, og það hljótum við að gera í þessu samhengi, hefur gríðarlega margt breyst í efnahagslífinu. Það ætti hv. þm. að vita og það er það sem ég var að vísa í. Núna eru mun fleiri aðilar en áður með fjármagn á milli handanna sem geta tekið þátt í þessu og eru að fjárfesta á ýmsan hátt. Það vita allir. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því, fyrst og fremst held ég að það sé af því að við höfum haldið skynsamlega utan um efnahagsmálin. Við höfum haldið vel utan um skattamálin og menn eru með þessa fjármuni núna hér heima ef þeir hafa aflað þeirra, sem er auðvitað mjög jákvætt.