Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:05:29 (7083)

2004-04-28 23:05:29# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:05]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. er einmitt að færa rök fyrir því hvers vegna ritstjórnarlegt sjálfstæði er algjört grundvallaratriði í blaðamennsku og fréttamennsku. Nú veit ég ekki hvaða reglur gilda t.d. á Ítalíu í þeirri stöðu sem þar er, sem er einhver sú óvenjulegasta sem til er væntanlega, en það er einmitt þessi múr sem þarf að reisa á milli eigenda og ritstjórnar og á milli ritstjórnar og auglýsenda sem tryggir hið ritstjórnarlega sjálfstæði og gegnsæi sem þarf að vera þannig að neytendur viti hvar fjölmiðillinn stendur. Hverjir eiga hann? Hvaðan koma þeir? Allir hafa einhverra hagsmuna að gæta. Hverra hagsmuna eru þeir að gæta? Fjölmiðlar á borð við Morgunblaðið veigra sér ekkert við að hafa skoðanir á málum í ritstjórnarskrifum sínum. Það vita líka allir.

Hins vegar er annað upp á teningnum á ríkisfjölmiðlum og við vitum hvers vegna. Það eru því þessar aðstæður sem við þurfum að búa til. Það sem ég hef verið að reyna að segja, hæstv. forseti, er að við búum þær ekki til með hugmyndum um að banna tilteknum fyrirtækjum í tiltekinni stöðu að fjárfesta þó ekki sé nema einni eða tveimur krónum í ljósvakamiðlana. Það gerist ekki þannig.