Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:07:06 (7084)

2004-04-28 23:07:06# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:07]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ekki megi skilja hv. þm. þannig að hún hafi fallið í þann pytt eins og margir aðrir stjórnarandstöðuþingmenn í dag að fara að efast um vinnubrögð þeirra sem starfa á Ríkisútvarpinu, hvort sem þeir eru á fréttastofunni eða annars staðar á þeim starfsvettvangi.

Væntanlega erum við öll sammála um að mjög æskilegt er að skorið sé á milli eigenda og ritstjóra. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að frjálsu fjölmiðlarnir geri það líka á sinn hátt. Ég skal taka það vel til greina ef menntmrn. getur liðsinnt þeim með einhverjum almennum reglum. Ég held engu að síður að við getum ekki verið þau börn að halda að slíkar reglur komi til með að halda þegar á reynir. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson dró einmitt fram ágætt dæmi um það, að ef hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson væri eigandi dagblaðs og ritstjórinn hefði hug á að ráða myndarpilt sem væri sjálfstæðismaður og hefði allt aðrar hugmyndir um kvótakerfið en eigandinn og ritstjórinn, halda menn virkilega að þetta ritstjórnarlega sjálfstæði blaðamannsins mundi halda? Er raunhæft að ætlast til þess að það komi til með að halda?

Það er vissulega gott að hafa trúna og við skulum leggja okkur öll fram. En við ferðum að koma með raunhæfar lausnir til að tryggja frelsi blaðamanna.