Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:09:08 (7085)

2004-04-28 23:09:08# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:09]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntmrh. má ekki misskilja mig. Ég var alls ekki að vega að starfsheiðri starfsmanna Ríkisútvarpsins. Hins vegar var ég að benda á að um þann fjölmiðil gilda lög. Hann er ríkisfjölmiðill og gegnir öðrum skyldum eins og við vitum öll og um hann gilda aðrar reglur. Hins vegar er það þannig á fjölmiðlum, tökum Morgunblaðið sem dæmi af því það vill svo til að ég þekki þar til, að þar vita þeir nokk sem lesa ritstjórnargreinarnar reglulega hvar það blað stendur í ákveðnum málum. Það kemur mjög skýrt fram. Ég held að það dragi ekkert úr gildi umfjöllunar blaðsins á öðrum stöðum, það dragi ekkert úr fagmennsku þeirra sem þar starfa. Það sem skiptir máli er að það liggur fyrir. Við megum heldur ekki vera þau börn að geta ekki trúað því að þeir sem starfi í þessu fagi geti ekki staðið í lappirnar og stundað iðju sína af þeirri trúmennsku og þeirri fagmennsku sem er nauðsynleg í blaða- og fréttamennsku eins og annars staðar í samfélaginu. Við verðum að ganga út frá því að það sé hægt. Það gerist með samkomulagi og reglum á vinnustað og innan stéttarinnar þar sem það liggur algjörlega ljóst fyrir hverjar leikreglurnar eru fyrir þeim sem þar starfa, fyrir lesendum og fyrir eigendum og allir vita hvernig þau kaup gerast á eyrinni. Aðeins þannig tryggjum við gegnsæið og hið ritstjórnarlega sjálfstæði sem ég held að allir séu sammála um að sé mikilvægast.