2004-04-29 00:00:02# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[24:00]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að blöðin voru skilin eftir er einfaldlega sú að blöðin hafa ekki verið leyfisskyld fram til þessa. Það er alveg rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson segir, hér er um prentfrelsi að ræða. Það er líka skýrt og klárt að útvarpsleyfin eru leyfisskyld, það eru skilyrt leyfi. Það er ekki eins og þau séu bara skilyrðislaus, það eru skilyrði nú þegar gegn afhendingu þeirra. Þar er, a.m.k. enn um sinn og næstu ár, um takmarkaða auðlind að ræða líka. Það er ekkert óeðlilegt að einmitt hafi verið tekið á þeim þætti málsins.

Ég get líka satt best að segja, frú forseti, ekki tekið alveg undir þann kór að allir fjölmiðlar hafi alltaf verið og séu á hausnum. Gott og vel, það hafa verið ákveðnar þrengingar. Fjölmiðlar eru líka þannig fyrirtæki sem koma og fara eins og ýmis önnur fyrirtæki, sumir fara á hausinn en svo eru líka til vel reknir fjölmiðlar. Ég þarf náttúrlega ekki að minnast á Morgunblaðið. Ég vil líka benda á þær fullyrðingar þeirra sem reka og hafa rekið Fréttablaðið að undanförnu að þeir segjast hafa rekið það með alveg þokkalegum hagnaði. Það sama var með Dagblaðið á sínum tíma, það var ávallt hagnaður af dagblaðsrekstri Dagblaðsins sem slíkum. Það var ekki fyrr en viðkomandi eigendur fóru út í áhættusamar fjárfestingar sem halla tók undan því annars áður ágæta blaði.