2004-04-29 00:02:09# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[24:02]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Blöðin voru ekki leyfisskyld, nei. Það er þá bara það að menn hafa ekki haft aðferð til að taka á þessu, eða hvað? Samt hafa menn fundið hana, að banna sérstökum aðilum að gefa út blöð, a.m.k. þeim sem eru í fjölmiðlarekstri, þ.e. útvarpi eða sjónvarpi. Það hafa menn ákveðið að gera með þeirri tillögu sem liggur fyrir. Menn hefðu svo sem alveg getað útvíkkað þetta og bannað fleirum ef til þess hefði verið vilji. Hefði átt að vera samræmi í því sem verið er að gera finnst mér að það hefði verið eðlilegt að menn skoðuðu það. En ég hefði verið á móti því.

Ég spyr hæstv. ráðherra enn og aftur: Finnst henni ekki býsna langt gengið í því að ráða hverjir megi leggja peningana sína í fjölmiðla að svo skuli vera mælt fyrir að ef einhver vilji leggja fjármuni í fjölmiðil skuli hann gera kompaní við a.m.k. þrjá aðra, það sé lágmarkið eins og gert er í þessum lagatexta? Mér finnst þetta allt saman vera svo langt gengið að það er ekki hægt annað en að spá því um framhaldið að það verði verulegar þrengingar á þessum markaði. Þeim sem eru í einhvers konar atvinnurekstri og vildu gjarnan setja fjármuni í fjölmiðla eru settir svo harðir kostir, þeir verða að hætta í rekstri sínum og stofna kompaní með öðrum til þess að mega leggja fjármuni í fjölmiðla. Ef þeir eru í einhverjum rekstri sem hægt væri að kalla markaðsráðandi, hver sem hann er, skuli þeir ekki leggja krónu í fjölmiðla.