2004-04-29 00:04:22# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[24:04]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Fyrirtæki geta verið sterk á markaði án þess að þau þurfi endilega að vera markaðsráðandi. Það að vera sterkur á markaði er ekkert endilega samasemmerki við það að vera markaðsráðandi. Ég verð að endurtaka það, frú forseti, að ég hef ekki mjög miklar áhyggjur af því að ekki komi inn fjársterkir aðilar sem geti staðið undir því að halda uppi öflugum fjölmiðlum hér á landi, sér í lagi þegar við lítum til þess líka --- ég rakti áðan með Morgunblaðið, DV og Fréttablaðið og vil þá leyfa mér að halda áfram með fjölmiðlana --- að Stöð 2 hefur og hefði getað verið rekin alveg með bærilegum hætti. Ég vísa þar til orða forstjóra Norðurljósa, Sigurðar G. Guðjónssonar, á síðasta aðalfundi Norðurljósa þar sem hann gerði upp við fortíðina. Það var alveg greinilegt að það fyrirtæki hefði verið hægt að reka mun betur ef ekki hefði verið fyrir þvergirðingshátt fyrri eiganda sem stóð gegn því að það fyrirtæki færi í endurskipulagningu, fyrir utan þá fjármuni sem teknir voru út úr fyrirtækinu. Það er alveg hreint og klárt og skýrt að það er hægt að reka fjölmiðla hérna með skynsamlegum hætti án þess að menn hafi hugsanlega gjaldþrotabeiðni yfir höfði sér. Það er ekki eins erfitt og áhættusamt og menn vilja alltaf vera láta.