2004-04-29 00:21:12# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[24:21]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst í rauninni öllum hlutum snúið á hvolf í umræðunni sem lúta að því hver er kveikjan að frv. Einhverra hluta vegna eru þingmenn Samf. alltaf að koma hér upp með annarlegar athugasemdir og annarleg sjónarmið og alltaf lúta þau að persónu forsrh. og að honum eigi að vera eitthvað í nöp við forstöðumenn og forráðamenn Baugs eða Norðurljósa eða hvað öll grúppan heitir. Það er ekki svo. Fyrir einhverjum tíma síðan leyfði forsrh. sér að gagnrýna vöruverð í einhverjum búðum hér. Síðan hefur eitt og annað gerst, m.a. einhverjar svæsnustu árásir á persónu í stjórnmálum sem um getur á síðari árum þar sem endalaust, síendurtekið er verið að vega að m.a. geðheilsu viðkomandi. Það er vegið á mjög ósmekklegan hátt að persónu forsrh. enn og aftur. Það þekkist ekki á byggðu bóli að svona sé vegið að forsrh. hvorki hér né annars staðar, ekki á þennan hátt, ekki að verið sé ýja að því að eitthvað sé að geðheilsu hans og hans persónu. (Gripið fram í: Hefur það verið gert hér?) Það hefur verið gert í fjölmiðlum vegna þess að hann leyfði sér í upphafi að gagnrýna vöruverð í ákveðnum verslunum. Þannig að mér finnst umræðunni allri snúið á hvolf. Það er ágætt ... (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, hér eru enn þá 17 sekúndur eftir ...

(Forseti (JBjart): Á klukku forseta eru komnar 12 sekúndur fram yfir tímann, það er einhver vanstilling á, en hæstv. ráðherra á kost á öðru andsvari.)

Þá ég bíð ég með það.