2004-04-29 00:24:03# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[24:24]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka háttprýði hv. þm. Marðar Árnasonar núna þegar við erum vonandi að ljúka umræðunni þar sem liðið er nokkuð á annan sólarhringinn hérna.

Eftir þessa umræðu er það tvennt, og ég ítreka það, sem eftir stendur hjá Samf. Annars vegar að hún vill leyfa markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga fjölmiðla, gott og blessað, það er ákveðin stefna, og hins vegar að það kom marg\-ítrekað fram að Samf. telur það vera fjölbreytni í fjölmiðlun þegar einungis er litið til stöðvanna og hversu mörg dagblöð eru gefin út, það dugar þeim til að segja að það sé fjölbreytni í fjölmiðlun og þar með sé lýðræðið tryggt þegar fyrirkomulagið er slíkt. Það kalla ég murdochisma. Þetta er nákvæmlega það sem Rupert Murdoch sagði: ,,Fínt, höfum bara nógu mörg dagblöð, nógu margar sjónvarpsstöðvar. Það er í lagi ef ég á það.`` Það er í lagi ef einn aðili á allt heila klabbið. Slíkt vil ég ekki sjá.