2004-04-29 00:27:40# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[24:27]

Halldór Blöndal:

Frú forseti. Það var svona góð tilbreyting að sjá hv. þm. hér í ræðustólnum þegar hann mælti sín síðustu orð. Málflutningur hans á köflum minnir mjög á uppruna hans og má segja að það sé góð upprifjun að heyra annað slagið dylgjur og tungutak Þjóðviljans bergmála af vörum þessa hv. þm. (Gripið fram í.) Og má raunar segja að skoðanir hans hafi að því leyti ekki breyst að hann er fljótur að skipta um lit eftir því hvernig honum finnast vindar blása. Þannig hafa vinstri sósíalistar verið upp á síðkastið. Maður hlustar og horfir á þessa gömlu þjóðviljamenn jafnvel halda magnaðar ræður fyrir Atlantshafsbandalaginu og hverju einu. Það eru kannski þær einu stundir sem ég efast stundum um ágæti þess ágæta bandalags.

Ég hlýt, frú forseti, vegna málflutnings hv. alþm. Marðar Árnasonar, 7. þm. Reykv. s., að rifja upp þá skýrslu sem hér er og þá kafla sem hv. þm. hljóp fram hjá, vegna þess að þegar hann var að vitna í skýrsluna vakti það ekki fyrir honum að draga fram þau atriði sem mestu máli skipta, heldur reyna að draga upp mynd af því sem þar stendur með mjög takmörkuðum tilvitnuðum og með því að velja þær sérstaklega úr og með því að minnast ekki á niðurstöður þeirra manna sem skýrsluna sömdu. Það er gamalkunn tækni sem ég þekki líka af síðum Þjóðviljans.

Á bls. 80 í skýrslunni þar sem hún fylgir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum er vikið að því að samkvæmt samþykktum Evrópuráðsins hvílir á íslenska ríkinu sú þjóðréttarskylda að leita leiða til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun.

[24:30]

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Nefndin tekur þó fram að af 10. gr. mannréttindasáttmálans og framangreindum tilmælum verða í sjálfu sér ekki leiddar sértækar kröfur um það hvaða leiðir ríki skuli fara til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum. Sé stuðst við þá mælikvarða sem koma fram í þessum skuldbindingum og tilmælum og þá sem notast hefur verið við í öðrum löndum virðist eignarhaldi á fjölmiðlafyrirtækjum og eignatengsl vera með þeim hætti ástæða sé til að draga megi í efa að fjölbreytni í fjölmiðlum, í þeim skilningi sem það hugtak er notað í greinargerðinni, sé nægilega tryggð hér á landi til lengri tíma litið.``

Þetta er auðvitað kjarni málsins. Það skýrir að sjálfsögðu af hverju hv. 7. þm. Reykv. s. vék ekki að þessu atriði, vegna þess að honum er gjarnt að koma helst ekki að kjarna málsins í hverju máli.

Þá vaknar spurningin um það hvort hin hefðbundnu samkeppnislegu úrræði dugi í þessu efni? Um það er líka sérstaklega fjallað í skýrslunni sem hv. þm. hefði verið auðgert að vitna til ef hann hefði viljað draga mynd af því sem raunverulega stendur í skýrslunni og niðurstöðu hennar. Til þess að ekkert fari á milli mála, hæstv. forseti, ætla ég að lesa úr þeim kafla sem um það fjallar, nokkrar setningar þannig að menn geti skilið hvernig horft er til þessara mála og hvort samkeppnislögin dugi eða ekki til að ná fram þeim markmiðum sem um er rætt. Með leyfi hæstv. forseta:

,,Rökin gegn því að láta hefðbundin samkeppnisleg úrræði nægja felast einkum í því að sjónarmiðin sem búa að baki samkeppnislögum og framkvæmd þeirra lúta að fjárhagslegum hagsmunum og stöðu fyrirtækja og að neytendasjónarmiðum. Þar sé almennt ekki rúm fyrir hin sértæku sjónarmið um pólitíska og menningarlega fjölbreytni sem búi að baki kröfunni um fjölbreytta fjölmiðla. Yfirleitt er álitið að óheppileg áhrif samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði komi fram áður en almennum þröskuldum samkeppnislaga er náð. Er í því sambandi lögð megináhersla á hlutverk fjölmiðla sem mikilvægasta vettvangsins fyrir lýðræðislega umræðu í frjálsu þjóðfélagi.``

Þetta er kjarni málsins í þessari skýrslu.