2004-04-29 00:39:54# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[24:39]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að láta þessa umræðu enda eins og hv. þm. Halldór Blöndal stofnaði til. Hann hlýtur að þurfa að útskýra fyrir þingheimi hvað hann átti við. Hann hélt ræður um blaðaútgáfu. Þessi lagasetning sem búið er að boða hér snýst ekki um blaðaútgáfu. Ógnin sem hv. þm. var að lýsa, af einhverjum ráðandi aðilum á markaðnum, hlýtur að stafa áfram af blöðunum. Það stendur ekki til að breyta neinu gagnvart þeim, nema einu, þ.e. að ef þeir aðilar, stórir ráðandi aðilar á markaðnum, eiga sjónvarp eða útvarp þá mega þeir ekki eiga blöð. En ef þeir eiga ekki sjónvarp eða útvarp þá mega þeir eiga blöð.

Mér finnst ræðurnar sem hv. þm. hefur haldið um blöðin, um að menn væru að nota þau til að koma skoðunum sínum á framfæri, eigi ekki heima í þessari umræðu nema við eigum von á að bæta eigi einhverju við í í lagasetningu af þessu tagi á Alþingi. Ég skildi það ekki svo af umræðunni í dag að það stæði til. Hv. þm. útskýrir það fyrir okkur ef hann ætlar að berjast fyrir því að tekið verði upp ákvæði í lagafrv. um að taka skuli blöðin með í þessari umferð.

Mér finnst stórkostlegt að hlusta á hv. þm. lýsa því hvernig einhverjum blöðum sem fara í taugarnar á honum sé stjórnað af þeim aðilum sem eiga þau og því þurfi endilega að taka á því máli. Hvenær hefur blöðum á Íslandi ekki verið stjórnað af þeim sem hafa átt þau og ráðið yfir ritstjórn? Hvað skyldi Morgunblaðið vera að gera? Hvernig hefur það verið rekið í gegnum tíðina? Hvernig stendur á því að sumir fá rammagreinar í Morgunblaðinu en aðrir ekki? Af hverju eru þeir yfirleitt úr Sjálfstæðisflokknum? Hvernig stendur á því að viss ráðherra hefur sérstakan stað í því blaði? Er verið að misnota blaðið? Ég spyr. Ég lít ekki þannig á að sé verið að misnota það blað. Það er einfaldlega í höndum sjálfstæðismanna og hefur verið alla tíð. Þeir hafa notað það eins og þeim hefur þótt við hæfi. Það veit þjóðin og hefur ekki farið í grafgötur með það.

Eins verður það með aðra blaðaútgáfu. Þeir sem eiga blöð munu nota þau eins og þeim þykir við hæfi. Það er full ástæða til að skoða möguleikana á að reyna að hafa hömlur á því hvað varðar yfirráð eða afskipti af blaðamönnum og annað slíkt. En eigendurnir munu alltaf hafa áhrif á ritstjórnarstefnu blaða sinna. Þeir munu sjá til þess. Þeir gefa ekki út blöð sem þjóna markmiðum sem ganga gegn þeim markmiðum sem þeir sjálfir hafa.

Mér finnst því eiginlega ekki sæmandi þingmönnum að bera það í ræðustól á Alþingi að einhver blaðaútgáfa sé þeim svo lítið að skapi að þeir vilji setja lög á hana. Þess vegna spurði ég um prentfrelsi hér í kvöld. Ég spurði hvort menn myndu ekki eftir hlutverki prentfrelsisins í lýðræðisþróuninni og mikilvægi þess að allir, hve mikið sem þeir fara í taugarnar á okkur, eigi rétt á að gefa út blöð. Mér finnst satt að segja að menn þurfi að fara svolítið betur yfir þessi mál, úr því að við erum farin að heyra ræður af því tagi sem við höfum hlustað á hér í kvöld.