Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 12:36:02 (7143)

2004-04-29 12:36:02# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[12:36]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega kjarni málsins sem ég er að benda á. Ef menn halda einhverju fram og vilja telja til tiltekinna réttinda, hvort heldur gagnvart öðru ríki eða öðrum þá er það náttúrlega þeirra sjálfra að leggja fram sönnur þess að grundvöllur sá sem sú krafa byggist á sé fyrir hendi og sé réttmæt. Það er eðlilegt.

Ég tek ekki undir það að málflutningur meiri hluta okkar í Sjálfstæðisflokknum í allshn. sé með ólíkindum. Við erum að mæla fyrir reglum sem eru til verndar þeim sem eiga hugsanlega undir högg að sækja. Við viljum sporna við málamynda- og nauðungarhjónaböndum. Það viljum við gera með því að setja þessa 24 ára reglu vegna þess að þeir menn sem hafa verið á vettvangi, sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli og forstjóri Útlendingastofnunar, segja að raunhæf hætta sé á því að fólk undir þessum aldri sé misnotað í þágu glæpamanna. Hvað er að því að setja reglur til þess að vernda þá hópa sem eru í meiri hættu en þeir sem fullorðnir eru?

Minni hlutinn segist vilja sporna við málamynda- og nauðungarhjónaböndum en hann vill greinilega ekki gera neitt í því að uppræta slíkt. Hann leggst gegn húsleitarheimildum sem eru settar í lög til þess að upplýsa um slíkan ófögnuð og jafnframt telur hann að engin ástæða sé til að vernda þá sem yngstir eru. Ég verð að segja að það kemur mér verulega á óvart að helstu málsvarar þess að berjast gegn glæpum eins og mansali og öðru slíku skuli koma hér á hið háa Alþingi og mæla gegn hugmyndum sem eru til verndar fórnarlömbum slíkra glæpa.