Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 12:40:41 (7145)

2004-04-29 12:40:41# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[12:40]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að gera að umtalsefni hina svokölluðu 67 ára reglu sem er að finna í frumvarpinu.

Það er nefnilega þannig og ég hygg að þeir sem standa að minnihlutaálitinu, nefndaráliti minni hlutans, átti sig ekki á því að hvergi á öllum Norðurlöndunum er að finna jafnrík réttindi fyrir aðstandendur til þess að sameinast fjölskyldu sinni og samkvæmt íslenskum lögum, hvergi á Norðurlöndunum. Og það verður áfram þannig jafnvel þó þetta frv. verði að lögum. Staðreyndin er nefnilega sú að í 13. gr. útlendingalaganna er sérstök lögfest heimild aðstandenda til að sækja um dvalarleyfi hér á landi á forsendum þess að þeir tengjast einstaklingum sem eru búsettir hér. Hér er verið að mæla fyrir þeirri breytingu á þessari sérstöku heimild að sett verði 66 ára aldursmark á regluna, þ.e. að viðkomandi verði, eftir að frv. verður að lögum, að hafa náð því aldursmarki. Jafnvel eftir þá breytingu verða íslensku lögin rýmri hvað varðar þennan rétt til sameiningar fjölskyldu en alls staðar annars staðar. Ég ætla aðeins að rekja hvernig það er.

Í Danmörku er engum sérstökum lögfestum heimildum til að dreifa fyrir aðstandendur til þess að byggja umsókn sína á. Í Noregi getur einungis annað foreldra óskað eftir því að fá slíkt leyfi. Þar er miðað við 60 ár. Í Svíþjóð er almennt miðað við það í framkvæmd og þar eru reglurnar þannig að einungis í undantekningartilvikum geta aðstandendur byggt dvalarleyfisumsókn sína á skyldleika, í undantekningartilvikum. Í Finnlandi er engri slíkri heimild fyrir foreldra til að dreifa.

Hér koma hins vegar menn upp og segja að menn séu að brjóta (Forseti hringir.) mannréttindasáttmála og virða að vettugi stjórnarskrárbundin mannréttindi.