Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:37:44 (7150)

2004-04-29 13:37:44# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Eins og þingheimi er kunnugt um kom á sl. ári upp ágreiningur á milli samkeppnisyfirvalda annars vegar og lögregluyfirvalda og ákæruvalds hins vegar um það hvar og hvernig skyldi haga rannsókn á ætluðum brotum á samkeppnislögum. Í framhaldi af umræðum sem urðu um málið ákvað ég að láta kanna hvort þörf væri á að endurskoða ákvæði samkeppnislaga um verkaskiptingu rannsóknaraðila og ákvæði þeim tengdum. Ég skipaði því starfshóp í september sl. að höfðu samráði við dóms- og kirkjumrh. Í skipunarbréfi hópsins var tekið fram að einkum skyldi taka til skoðunar verkaskiptingu rannsóknaraðila og beitingu viðurlaga. Skyldi hópurinn í því sambandi yfirfara ákvæði laganna um refsingar með það að leiðarljósi að skerpa varnaðaráhrif þeirra. Teldi starfshópurinn að gefnu tilefni nauðsynlegt að gera breytingar á öðrum lögum í tengslum við samkeppnislögin var óskað eftir ábendingum þar að lútandi.

Hinn 2. febrúar sl. skilaði starfshópurinn mér drögum að frv. til breytinga á samkeppnislögum. Þau frumvarpsdrög voru lögð fyrir ríkisstjórn en ljóst er að frv. þessa efnis verður ekki lagt fyrir yfirstandandi þing. Frumvarpsdrög þau sem nefndin skilaði af sér eru til athugunar í ráðuneytinu en ekki er búið að taka ákvörðun um frekari framvindu málsins.

Við endurskoðun reglna um hvar og hvernig rannsókn á meintum samkeppnislagabrotum á að fara fram eru ýmis sjónarmið sem koma til skoðunar. Að mínu mati er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hérlendar samkeppnisréttarreglur eiga rætur sínar að rekja til aðildar okkar að EES-samningnum og þeim skuldbindingum sem af því leiddu. Löggjöfin hér á því evrópska fyrirmynd en ekki norræna eins og oft er um íslenskan rétt. Það eru því ekki jafngild rök fyrir því að mínu mati að líta til Norðurlandanna í þessu efni eins og í ýmsum öðrum málum. Líta verður til þróunar í Evrópu í heild og jafnvel til Bandaríkjanna, en eins og þingmönnum er kunnugt er þar mikil reynsla í beitingu samkeppnisréttar. Flest EES-ríki hafa aðlagað lög sín að meira eða minna leyti að Evrópuréttinum á þessu sviði. Þróunin hefur verið í þá átt að fela samkeppnisyfirvöldum að rannsaka meint samkeppnisbrot og leggja á stjórnvaldssektir.

Rökin fyrir tilhöguninni eru þau að hjá samkeppnisyfirvöldum er fyrir hendi sérhæfð þekking, bæði hagfræðileg og lögfræðileg, sem nauðsynleg er í þessum málum. Einnig hefur verið talið að heimild til að leggja á stjórnvaldssektir flýti fyrir því að málum sé lokið og auki þar með varnaðar\-áhrif samkeppnislaga. Ég tel þessi sjónarmið skynsamleg og að taka beri tillit til þeirra við þróun réttarins hér á landi.

Í þessu sambandi má nefna að sú sekt sem lögð var á Microsoft fyrir nokkrum vikum upp á tugi milljarða kr. var lögð á af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem hafði rannsakað brot fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu. Málið sýnir svo ekki verður um villst hversu mikil völd samkeppnisyfirvöld hafa á Evrópuvettvangi.

Þau frumvarpsdrög sem nefndin skilaði af sér gera ráð fyrir að rannsókn á meintum brotum fyrirtækja fari fram innan Samkeppnisstofnunar en að lögregla fari með mál er varða einstaklinga. Því hefur verið haldið fram að sú tilhögun standist ekki mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki verður með neinu móti séð að slík tilhögun brjóti gegn sáttmálanum. Hann mælir einungis fyrir um réttinn til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis fyrir sama brot. Hann fjallar hins vegar í engu um rannsókn mála á tveimur stöðum, enda er slíkt fyrirkomulag fyrir hendi víða, t.d. í Bretlandi og í Þýskalandi og hefur ekki verið fett fingur út í þá tilhögun.

Svo sem þingheim rekur minni til var rótin að þessum umræðum rannsókn Samkeppnisstofnunar á meintu ólögmætu samráði olíufélaga. Þeirri rannsókn miðar vel hjá Samkeppnisstofnun að því er ég best veit og einnig mun málið vera til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum þannig að ætluð lagaóvissa hefur ekki tafið framgang málsins. Það breytir hins vegar ekki því að þegar litið er til framtíðar er æskilegt að finna verkaskiptingu milli þessara aðila fastari farveg og er það mál eins og ég sagði áðan til skoðunar í ráðuneytinu.