Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:57:13 (7158)

2004-04-29 13:57:13# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Deilurnar sem uppi eru í þessu máli koma ekki bara hæstv. dómsmrh. og hæstv. viðskrh. við heldur allri þjóðinni. Almannahagsmunir eru í húfi og mikilvægt að höggvið verði á þann hnút sem verið hefur milli ráðherranna allt frá síðasta sumri.

Ég spyr: Gerir hæstv. viðskrh. sér grein fyrir ábyrgð sinni ef þeir aðilar sem staðið hafa að einu stærsta samsæri Íslandssögunnar gegn neytendum verða fundnir sekir en sleppa mögulega við refsingu vegna þess að hæstv. ráðherrar geta ekki útkljáð deilur sínar? Það væru alvarleg embættisafglöp sem ráðherrar verða að axla ábyrgð á og jafnframt alvarlegt að láta sumarið líða og hafa uppi réttaróvissu um þessi valdmörk milli Samkeppnisstofnunar og lögreglu.

Það ætti að styrkja hæstv. ráðherra að sjálf réttarfarsnefnd, sem hæstv. dómsmrh. skipar og er dómsmrh. til ráðgjafar um málefni á sviði réttarfars, er í meginatriðum sammála þeirri leið sem Samkeppnisstofnun vill fara og ráðherra einnig. Það kemur fram í umsögn réttarfarsnefndar sem nú liggur fyrir um þingmál okkar samfylkingarmanna um sama efni. Það liggur fyrir, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur stuðning meiri hluta Alþingis, Samkeppnisstofnunar, sjálfrar ráðgjafarnefndar hæstv. dómsmrh., réttarfarsnefndar, við þá leið sem hæstv. ráðherra vill sjálf fara.

Maður spyr því, og það stendur auðvitað upp úr, herra forseti: Hversu langt ætla framsóknarmenn að ganga í þjónkun sinni við íhaldið? Það er ekki hægt, herra forseti, að skilja við þingið án þess að þetta frv. nái fram að ganga, sem allir áðurnefndir aðilar vilja styðja, og hæstv. ráðherra knékrjúpi með þessum hætti fyrir hæstv. dómsmrh. og íhaldinu, enda eru ráðherrastólar í húfi í haust.