Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 21:08:01 (7246)

2004-04-29 21:08:01# 130. lþ. 106.13 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[21:08]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna því að hæstv. sjútvrh. skuli vera viðstaddur þessa umræðu. Hann getur kannski upplýst um ákveðin atriði sem okkur hefur þótt skorta á upplýsingar um við umfjöllun um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og annað sem fylgir á eftir varðandi veiðieftirlitsgjald.

Frumvarp þetta ásamt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, sbr. 787. mál yfirstandandi löggjafarþings, þar sem lagt er til að veiðieftirlitsgjald falli niður frá 1. september nk. er hluti af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að taka upp veiðigjald. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að hæstv. sjútvrh. skuli vera hér staddur.

Ákvörðun um veiðigjaldið var auðvitað hluti af svokallaðri sátt í sjávarútvegsmálum sem ríkisstjórnarflokkarnir stóðu fyrir fyrir síðustu kosningar. Við þurfum að fá að vita nánar um hvers virði sáttin er talin vera þegar reynir á hvað reikningar gefa upp.

Ákvörðun stjórnarflokkanna um upptöku veiðigjalds var kynnt sem niðurstaða af sáttaleit þeirra í deilunum um stjórn fiskveiða. Þessar deilur hafa skekið þjóðina og þennan mikilvæga atvinnuveg árum saman. Umræður um sjávarútvegsmál í aðdraganda síðustu kosninga sýndu svo ekki varð um villst að þessi tilraun stjórnarflokkanna til að ná betri friði um málið hefur gersamlega mistekist. Foringjum stjórnarflokkanna er nú orðið vel ljóst að veiðigjaldsleiðin er ekki leið til sátta við þjóðina um málið. Meðhöndlun þeirra á þeim tveimur frumvörpum sem nú eru til meðferðar á Alþingi er til marks um þetta. Sjávarútvegsráðherra gerði við 1. umr. málanna í þinginu því engin skil hvaða fjárhæðir gætu komið í ríkissjóð í formi veiðigjalds í stað þeirra gjalda sem nú á að leggja af. Ekki tókst þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minni hlutans við meðferð málsins í sjávarútvegsnefnd að fá fram upplýsingar um það atriði. Ég fagna hins vegar því sem hv. formaður nefndarinnar sagði áðan um að hann mundi hlutast til um að áður en 3. umr. fer fram verði þær upplýsingar til staðar. Kannski fáum við þessar upplýsingar í kvöld fyrst hæstv. sjútvrh. er mættur. Hann hefur kannski í farteskinu þær upplýsingar sem hér er beðið um.

Nefndarmenn fengu engar upplýsingar um hvaða áhrif glataðar tekjur vegna Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og af veiðieftirlitsgjaldi hafa á heildargreiðslur sjávarútvegsins vegna þjónustu hins opinbera og þar með afkomu ríkissjóðs.

Verði frumvarpið um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að lögum má gera ráð fyrir að innheimta á þróunarsjóðsgjaldi á aflamark lækki um 510 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 650 millj. kr. innheimtu fyrir árið 2004. Einnig er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins vegna þróunarsjóðsgjalds á skip lækki um 2 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 92 millj. kr. innheimtu. Verði frumvarpið um afnám veiðieftirlitsgjaldsins að lögum lækka tekjur ríkissjóðs af veiðieftirlitsgjaldi um 270 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 335 millj. kr. fyrir árið 2004.

Heildarniðurstaða niðurfelldra gjalda sjávarútvegsins til ríkissjóðs vegna þessara tveggja frumvarpa er þess vegna 782 millj. kr. á árinu 2004 en engar upplýsingar liggja fyrir um tekjur af veiðigjaldi fyrir þetta ár. Ljóst er þó að veiðigjaldið verður lagt á samkvæmt lögum þar um, sbr. lög nr. 85/2002, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg og sérlega bagaleg í ljósi þess að stjórnarflokkarnir völdu leið sem gerir veiðigjaldið háð afkomu útgerða þannig að minni hlutinn hafði ekki forsendur til að meta hver fjárhæð þess gæti orðið.

Minni hlutinn telur þess vegna að forsendur skorti til að Alþingi geti tekið afstöðu til frumvarpsins og leggur til að málinu verði vísað aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. og að 3. umr. fari ekki fram fyrr en upplýsingar um heildarfjárhæð veiðigjalds á þessu ári liggja fyrir.

Við teljum að í raun ætti atkvæðagreiðsla um þetta mál helst ekki að fara fram fyrr en upplýsingar um fjárhæð gjaldsins liggja fyrir. Ákvörðun Alþingis um að fella út Þróunarsjóðinn og líka veiðieftirlitsgjaldið ætti að taka út frá þeim upplýsingum þannig að menn viti hvaða áhrif það hafi á afkomu ríkissjóðs.

Það er dálítið merkilegt að eftir allar stóru yfirlýsingarnar um sáttina í sjávarútvegsmálum sem gefnar voru í sölum Alþingis þegar veiðigjaldið var sett á sem niðurstaða stjórnarflokkanna, að eftir allt sem hafði gengið á á undan --- fyrst skipuð svokölluð sáttanefnd sem við, sem tókum þátt í henni, héldum í einfeldni okkar að ætti að leita pólitískra sátta í þessu máli --- reyndist sú sátt ekki vera nema á milli þeirra höfðingjanna, þ.e. forsætisráðherra og verðandi forsætisráðherra. Hún var fólgin í svokölluðu veiðigjaldi.

[21:15]

Nú ber svo við að tekjur ríkissjóðs frá útgerðinni í landinu eru ekki ljósar vegna þess að upplýsingar um hvað eigi að koma í kassann í staðinn liggja ekki fyrir. Það er meiri óvissa í málinu en efni stóðu til vegna þess að í upphafi var tillagan sem var verið að fást við og svokölluð sáttanefnd, þ.e. meiri hluti hennar, lagði til að yrði farin fólgin í því að hluti af veiðigjaldinu væri fastar tekjur ríkissjóðs frá útgerðinni sem kæmu þá í staðinn fyrir þessi tvö gjöld sem við erum að tala hér um en hinn hlutinn væri tengdur afkomu ríkissjóðs. Hæstv. ríkisstjórn komst að þeirri niðurstöðu að láta bæri allt gjaldið sem yrði innheimt taka mið af afkomu útgerðarinnar. Það er merkileg niðurstaða. Þessi atvinnuvegur fær verulega þjónustu frá hendi ríkisins og þessi gjöld sem útgerðin hefur greitt eru ekki nema pínulítill hluti af þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar þjónustu. Menn voru hins vegar með stóryrtar yfirlýsingar um að eðlilegt væri að sjávarútvegurinn greiddi þann kostnað sem félli á ríkið vegna þeirrar þjónustu sem ríkið veitir sjávarútveginum.

Á meðan við vitum ekki hvernig sú aðferð sem var stofnað til með veiðigjaldinu reynist erum við í algerri óvissu um það hve mikil gjöld innheimtast með þeim hætti sem þarna er búið að ákveða að verði viðhafður.

Ég held að kannski sé ástæða til að vangaveltur um skattamál fylgi í þessari umræðu öllu frekar en þeirri sem fór fram hér á undan. Sannarlega er um að ræða yfirlýsingar um að hér hafi átt að stofna til skatta á útgerðina og hátt hafa þeir kveinað, ýmsir útgerðarmennirnir, vegna þeirrar skattheimtu sem þeir hafa haldið fram að hér væri á ferðinni. Það er þess vegna ekki lítil ástæða til að fá að sjá hversu þungar byrðar útgerðin á að bera með þessu nýja gjaldi. Okkur fannst líka undarlegt að ekki væri hægt að upplýsa okkur um það í meðferð málsins hjá nefndinni. Mjög stutt var eftir af því tímabili sem á að hafa til viðmiðunar. Manni finnst aldeilis ótrúlegt að í ráðuneytinu leynist ekki svo talnaglöggir menn að þeir hafi getað getið sér til um það með nokkurri vissu hve háar skattgreiðslur gætu komið í ríkissjóð miðað við þau lög sem eru í gildi um veiðigjaldið. Það var sem sagt ekki fyrir hendi og hefur ekki verið fram að þessu.

Okkur finnst þess vegna einsýnt að Alþingi geti ekki og eigi ekki að afgreiða þetta mál við 3. umr. fyrr en þessar upplýsingar liggja fyrir. Satt að segja trúi ég því ekki fyrr en ég tek á að þær verði ekki til staðar þegar þar að kemur. Málið er svona vaxið og það setur okkur í stjórnarandstöðunni í þann vanda að geta ekki tekið afstöðu til þess.

Ekki getum við lagst gegn því sem mundi þá þýða að við værum að leggja til að það yrði fellt og að útgerðin sæti þá uppi með það að borga þessi gjöld, veiðieftirlitsgjaldið og líka þróunarsjóðsgjaldið, plús það sem útgerðin mun þá eiga að borga samkvæmt lögunum sem eru í gildi um veiðigjald.

Ekki getum við samþykkt gjaldið vegna þess að við vitum ekki neitt hvað við erum að samþykkja fyrir hönd ríkissjóðs og útgerðarinnar. Þetta er aðstaða sem þingmenn eiga ekki að vera í og þurfa ekki að vera í. Það er hægt að hafa upplýsingar til staðar og eins og ég sagði áðan trúi ég því ekki fyrr en ég tek á að þær verði það ekki.

Auðvitað væri ástæða til að ræða þetta mál vel og vendilega en þau mál sem ferðast hér saman í gegnum afgreiðslu þingsins af eðlilegum ástæðum eru tvö og ég mun ræða þau nánar þegar veiðieftirlitsgjaldið kemur til umræðu hér á eftir, ef ég sé ekki ástæðu til að fara aftur upp í umræðu um þetta mál um Þróunarsjóðinn.

Ég ætla að segja að lokum að það er rétt að minna þá á sem hafa kannski ekki setið lengi á Alþingi að Þróunarsjóðurinn varð til vegna hremminga útgerðarinnar á sínum tíma (Gripið fram í: ... fyrir nýju þingmennina.) og nýju þingmennirnir ýmsir kunna kannski ekki þá sögu. Ég ætla samt ekki að fara yfir hana enda kann ég hana ekki svo nákvæmlega (Gripið fram í: ... rifjað upp þessa sögu ...) en ég man hins vegar að útgerðin á Íslandi stóð afar illa þegar Þróunarsjóður var settur upp. Hann var settur upp til þess að bjarga fyrirtækjum í sjávarútvegi frá gjaldþroti. Hvort sem mönnum finnst þessi þróunarsjóðshugmynd góð eða vond --- mörgum þótti hún vond á sínum tíma, sérstaklega sjálfstæðismönnum sem börðust hatrammlega gegn þeim sjóði og settu út á hann á alla kanta --- náðust í aðalatriðum markmiðin sem menn settu sér með því að koma Þróunarsjóðnum upp, að bjarga fyrirtækjum víða um landið frá miklum vanda. Hrakspár hinna ýmsu manna um að þessi fyrirtæki gætu engin greitt til baka það sem þeim var lánað gegnum þessi átök öll reyndust sem betur fer ekki réttar nema að hluta til.

Það má segja að síðan þetta ólag reið yfir útgerðina á Íslandi hafi annað eins ólag ekki yfir hana riðið sem betur fer. Það uggir mig þó að þegar útgerð á Íslandi kemst aftur í hann krappan sem hún auðvitað gerir einhvern tímann --- sagan hefur sýnt okkur að það er ekki varlegt að gera ekki ráð fyrir verðfalli á mörkuðum eða olíukreppu aftur og þá getur reynt á stöðu útgerðar á Íslandi (Gripið fram í.) --- hvernig er hún þá í stakk búin til að takast á við það ástand? Jú, menn hafa hælt sér af því að hér hafi aldrei verið betur að útgerð staðið. Útgerðin á Íslandi hefur samt aldrei skuldað þangað í veg það sem hún skuldar núna. Það gæti reynst henni erfitt í kreppu þegar á á að herða, að hafa slíkan skuldabagga að bera.

Þetta er mikið umhugsunarefni og á þá skýringu að stofnkostnaður í útgerð á Íslandi hefur fimm- til sjöfaldast með því að ofan á hann hefur bæst sá kostnaður sem útgerðarmenn hafa af því að þurfa að kaupa framtíðarkvóta á markaðnum á því verði sem þar er. Þetta er ástand sem enginn hélt fram á sínum tíma að mundi koma upp. Allir sem ég a.m.k. heyrði í og sá skrif eftir um þetta fyrirkomulag sem hér er til staðar, einkavæðingu Íslandsmiða sem var í raun sett endanlega af stað 1990 með lögunum um stjórn fiskveiða sem þá voru sett, hefur valdið þessu sem ég er hér að ræða.

Ýmislegt bendir til þess að útgerðin eigi erfiðara í bili en hún átti fyrir einu ári. Batamerkin eru ekkert óskaplega mikil eins og er þó að auðvitað verði menn að vonast til þess að úr rætist. Eftir því verða menn þó að muna að útgerðin á Íslandi hefur aldrei í gegnum tíðina búið við hærra fiskverð en hún hefur gert síðasta áratuginn eða svo. Það hefur aldrei gerst síðan ég fór að fylgjast með í sjávarútveginum að menn hafi sloppið svo vel frá lægðum í fiskverði sem nú þar til að lægðir komu í ýsu- og ufsaverð og einhverjar fleiri tegundir núna á síðasta ári. Kannski eru einhverjir hættuboðar í því og sumir hafa haldið því fram að við mættum búast við erfiðum tímum vegna nýrra keppinauta á mörkuðunum, t.d. Kínverjanna sem eru farnir að láta finna fyrir sér með útflutningi á fiski sem þeir hafa flutt inn til reynslu. Síðan er fiskeldi líka farið að hafa áhrif á framboð á þeim mörkuðum sem við seljum okkar fisk á.

Það væri full ástæða til að fara mjög vandlega yfir allt það mál sem þessi frumvarpaafgreiðsla sem við stöndum nú frammi fyrir ól af sér, hvernig það varð til og í hvað virðist stefna. Það væri fróðlegt að hæstv. sjútvrh. talaði sig svolítið út um það hvernig honum líst á sáttina sína og hverjar þær upphæðir muni verða sem hann taldi, ásamt félögum sínum í ríkisstjórninni, að mundu færa þjóðinni sátt um sjávarútvegsmálin. Það var greinilegt að niðurstaða ríkisstjórnarinnar var sú að með þessum skatti á útgerðina sem þarna er stofnað til með veiðigjaldinu yrði þjóðin sátt við það að áfram ríkti einokunarfyrirbrigði í útgerð á Íslandi sem er fólgið í því að menn fá að kaupa og selja og eiga þjóðarauðlindina, geta farið með hana eins og hverja aðra eign.

Þetta rættist ekki. Enginn er sáttur við að ekki skuli ríkja atvinnufrelsi í sjávarútvegi á Íslandi. Afleiðingarnar eru alltaf að verða skýrari og skýrari. Það er engin nýliðun í atvinnuveginum og á fjölmörgum stöðum hefur orðið brestur í trú manna á þeirri framtíð að búa í sjávarþorpum sem eiga allt sitt undir því að menn megi nýta fiskimiðin sem urðu til þess að byggð komst á þar sem fólkið býr.

Það er mikið umhugsunarefni hvernig þetta er allt saman. Núna stöndum við frammi fyrir því að enn ein deilan stendur yfir um sjávarútveginn. Hæstv. sjútvrh. baslar við það þessa dagana að reyna að klára að loka þessu kvótakerfi. Hann baslar við það að reyna að ná samkomulagi við smábátaeigendur um þetta svokallaða dagakerfi. Því var lofað hér fyrir áramótin að niðurstaða næðist í það mál á þessu vori. Nú styttist í þinghaldinu þó að við vitum svo sem ekki hve lengi hv. þm. Gunnar Birgisson þarf að sitja í þessum sal.

[21:30]

Samt hlýtur að vera kominn tími til að spyrja hvað líði fyrirætlunum hæstv. ráðherra að klára dagamálið og úr því að svo vel ber í veiði að hann er hér hlýtur hann að geta upplýst okkur um hvernig það gangi. Ég get ekki verið bjartsýnn á framhaldið í sjávarútveginum hvað varðar hinar smærri byggðir í kringum landið, vegna þess að þó svo að þar leysist með einhverjum hætti úr smábátamálinu, sem ég vona og trúi ekki öðru en menn klári úr því yfirlýsingar hafa verið gefnar um það, get ég samt ekki verið bjartsýnn á framtíð sjávarbyggðanna eins og málum er háttað.

Mér finnst ástæða til þess að hæstv. sjútvrh. fjalli líka um hvað eigi að gera við þau 30 þús. tonn í viðbótarveiði á þorski sem að verulegum líkindum verða til ráðstöfunar þegar nýtt fiskveiðiár hefst í haust. Það var bætt við 30 þús. tonnum í þorskveiðinni í fyrra og þá viðbót fengu þeir sem hafa aflaheimildirnar í höndum sínum en aðrir ekki. Mér finnst þess vegna full ástæða til að spyrja hvort sú braut verði áfram haldin að menn ætli ekki að gera neitt til þess að leysa vandamál á landsbyggðinni með þeirri viðbót sem virðist stefna í að verði.

Til viðbótar mætti hæstv. ráðherra fara yfir það, vegna þess að aðalröksemd hans og ýmissa félaga hans fyrir því að úthluta eigi veiðiheimildum með þeim hætti sem gert er hefur verið fólgin í því að menn hafi haft einhverja veiðireynslu á einhverjum tilteknum degi og að úthlutunin hafi byggst á því og rökstuðningurinn þangað sóttur að menn hafi verið að veiða. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera þegar einhver fisktegund, og einhverjar munu nú þegar vera því marki brenndar, fer að gefa meira af sér en úthlutunin eða veiðireynslan gefur tilefni til? Varla eru rök fyrir því að þegar menn eru búnir að fá sem svarar veiðireynslunni að þeir fái meira en veiðireynslan gefur tilefni til. Hver eru rökin fyrir því að viðbótin sem kemur fram yfir falli líka í þeirra hlut? Er hægt að finna einhverja skynsamlega röksemd fyrir því?

Ég hef leiðst út í að spjalla um ýmsa hluti sem oft hafa verið til umræðu í sölum Alþingis, en reyndar ekki upp á síðkastið og ástæða til að ræða þá oftar en gert hefur verið í vetur.

Ég hlakka til að heyra svör hæstv. ráðherra við spurningum mínum.